Þann 1. október sl. fékk byggðaráð Dalvíkurbyggðar til kynningar drög að aðgerðaáætlun um heftingu á útbreiðslu á lúpínu, kerfli og njóla í Dalvíkurbyggð. Málið er enn til meðferðar hjá sveitarfélaginu og engin endanleg ákvörðun verið tekin. Áfram verður unnið að þessu máli innan stjórnkerfis sveitarfélagsins en næstu skref eru þau að drög að aðgerðaáætlun verða lögð fyrir umhverfisráð Dalvíkurbyggðar til umfjöllunar. Eftir að sveitarstjórn hefur samþykkt lokaútfærslu áætlunarinnar verður hún kynnt fyrir landeigendum auk þess sem óskað verður eftir samstarfi þeirra í þessu átaksverkefni.
Drög að aðgerðaáætlun leggja til að farið verði í ýmsar aðgerðir til að hefta frekari dreifingu þessara plantna. Megináhersla verður lögð á umhverfisvænar leiðir til að eyða lúpínu, kerfli og njóla t.d. með slætti. Í þeim tilfellum þar sem nota þarf eitur á lúpínu, eða annan gróður, verður notað efni sem hefur eingöngu áhrif á tvíkímblaða plöntur en það hefur áhrif á viðkomandi plöntur en eyðir ekki öðrum gróðri. Sveitarfélagið mun að sjálfsögðu ekki nota eitur, við þessa heftingu á útbreiðslu, sem minnsti grunur leiki á að stefnir vistkerfi sveitarfélagsins eða fólki í hættu.
Á meðfylgjandi mynd sést hvernig hægt er að nota beit snemmsumars og seinnpart sumars til að halda lúpínu í skefjun. Hún sýnir líka að með því að rækta lúpínu getum við breitt gróðurfari til að annarra landnota en fyrir er á svæðinu t.d. til að auka grasvöxt í rýru landi eða til trjáræktar.