Nafn Dalvíkur er nú að finna í fleiri en sextíu milljónum farsíma um allan heim. Markaðssetningin hefur þó verið sveitarfélaginu algjörlega kostnaðarlaus, enda hafði bæjarráð ekkert að gera með ákvörðunina. Dalvík er nefnilega nafn á svokallaðri Java-sýndarvél símastýrikerfisins Android frá Google. Android er eitt af vinsælustu símastýrikerfum heims um þessar mundir, en 60 milljónir Android-síma seldust á þessu ári. Dalvík Java-sýndarvélin er órjúfanlegur hluti af Android, þó að fæstir notendur átti sig almennilega á tilgangi vélarinnar.
Þegar leitað er eftir upplýsingum um Android er Dalvíkurnafnið aldrei langt undan. Ekki er nóg með það, heldur er yfirleitt tekið fram að vélin sé nefnd eftir sjávarþorpi á Íslandi. Svanfríður er afar ánægð með það. „Dalvík eitt og sér segir engum neitt, en ef því er bætt aftan við að þetta sé íslenskt sjávarþorp fer þetta að fá svolitla merkingu. Það er auðvitað mjög skemmtilegt fyrir okkur hér," segir hún.
Dalvík Java-sýndarvélin er skrifuð af hugbúnaðarverkfræðingnum Dan Bornstein. sem starfar hjá Google. Hann hefur einhvern óútskýranlegan áhuga á Dalvík og nefndi vélina í höfuðið á bænum áður en hann hafði svo lítið sem stigið fæti á íslenska grund, en hann bætti úr því fyrir rúmum tveimur árum. Bornstein segir bæinn hafa staðist væntingar sínar. „Ég kom til bæjarins viku eftir fiskidaga með kærustunni minni," segir hann. „Við fórum í sund og skemmtum okkur mjög vel. Það var ekki mikið um að vera í bænum þannig að við nýttum bæinn sem eins konar höfuðstöðvar og fórum í ferðir til Mývatns, á Akureyri og út í Grímsey."
Spurður hvort samstarfsfélagarnir hjá Google hafi áhuga á Dalvík eftir að þeir fóru að sjá nafninu bregða fyrir í vinnunni segir hann þá vita talsvert meira um bæinn en áður. „Ég er reyndar sá eini sem hefur komið til Dalvíkur," segir hann.
En er möguleiki á því að starfsmenn Google fari í hópferð til Dalvíkur?
„Ég vildi að ég hefði slík áhrif. En mig langar mjög mikið að heimsækja bæinn á ný."
Frétt fengin af visir.is