Bassasöngvarinn Bjarni Thor þurfti að fresta tónleikum sínum í Bergi menningarhúsi , sem halda átti í nóvember síðastliðnum, eftir að hafa boðist að syngja á La Scala í Mílanó. Nú gefst fólki hins vegar tækifæri á að hlýða á söng Bjarna Thors við undirleik Ástríðar Öldu Sigurðardóttur píanóleikara í Bergi á Dalvík, laugardaginn 16. febrúar kl. 16:00
Bjarni er einn af kunnustu söngvurum Íslands í dag enda komið víða við. Meðal helstu óperuhlutverka Bjarna má nefna: Barón Ochs í Rósariddaranum, Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu, Pímen í Boris Godunow, Rocco í Fidelio, John Falstaff í Kátu konunum frá Windsor, van Bett í Zar und Zimmermann, að ógleymdum ýmsum hlutverkum í óperum Wagners, svosem Wotan í Rínargullinu og Pogner í Meistarasöngvurunum. Bjarni er nýkominn heim frá Ítalíu þar sem hann söng bassahlutverk í sálumessu Verdis í borginni Lecce.
Í Bergi flytja þau Bjarni Thor og Ástríður Alda dagskrána Læknirinn og ljósmyndarinn, þekkt íslensk sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns og Árna Þorsteinsson, auk laga sem sjaldan eða aldrei hafa heyrst.
Allar nánari upplýsingar á www.bergmenningarhus.is