Fyrst mót sumarsins á Íslandsbankamótaröð unglinga í golfi fór fram á dögunum í Þorlákshöfn. Þar vakti athygli að margir kylfingar frá Norðurlandi voru að standa sig vel sem er athyglisvert í ljósi þess að ekki er búið að opna velli hérna á svæðnu vegna snjós. Þetta kemur fram í frétt á síðunni www.kylfingur.is.
Tveir kylfingar úr Golfklúbbnum Hamri á Dalvík (GHD) fögnuðu sigri í yngsta aldursflokknum, 14 ára og yngri. Kristján Bendikt Sveinsson sigraði í strákaflokki og Ólöf María Einarsdóttir fagnaði sigri í stelpuflokki. Kristján lék frábærlega á fyrri keppnisdegi í mótinu en hann lék fyrri hringinn á 71 höggi eða pari Þorláksvallar. Arnór Snær Guðmundsson varð einnig annar í strákaflokki og Birta Dís Jónsdóttir varð önnur í telpnaflokki, 15-16 ára. Árangurinn hjá GHD í mótinu var því frábær.
Fyrrum atvinnumaðurinn og Íslandsmeistarinn Heiðar Davíð Bragason þjálfar hjá Golfklúbbnum Hamri á Dalvík og er afar ánægður með árangurinn. „Þetta var mjög flott hjá þeim en ég segi þó ekki að þetta komi mjög á óvart. Krakkarnir eru duglegir að æfa yfir veturinn og við höfum frábæra inniaðstöðu sem er að skila sér. Við hefðum ekki náð þessum árangri um helgina ef við hefðum ekki þessa inniaðstöðu,“ segir Heiðar Davíð.
Snjórinn vonandi á förum
Vel er búið að kylfingum til æfinga á Dalvík yfir vetrartímann. Í íþróttahúsinu geta kylfingar slegið í net og æft stutta spilið á æfingaflöt. Krakkarnir í klúbbnum héldu einnig í æfingaferð á Vesturland fyrir skömmu.
„Það hjálpaði mikið enda ekkert hægt að spila golf hér fyrir Norðan. Það hlýnaði reyndar vel um helgina þannig að við vonum að snjórinn sé á förum. Ég er mjög bjartsýnn á gott gengi hjá mínum krökkum í sumar og þau eiga eftir að verða enn betri. Krakkarnir fyrir sunnan hafa smá forskot þar sem þau geta leikið alvöru golf en þetta er allt spurning um hugarfar. Ef þú getur ekki spilað golf úti á velli þá verður þú bara að gera það besta úr stöðunni og æfa inni líkt og við höfum gert. Nú þurfa mínir krakkar bara að bæta í æfingarnar.“