Aðalfundur Ferðatrölla verður haldinn næstkomandi sunnudag, 2. mars kl. 17:00 að Hótel Sóley. Ferðaþjónustan þarf að vinna saman í samfélagi eins og Dalvíkurbyggð. Hún þarfnast þess að ferðamaðurinn komi til Dalvíkurbyggðar. Síðan er að halda honum þar og þjónusta hann. Það er sameiginlega sem hún getur látið að sér kveða, en hún týnist í fjöldanum ef allir eru í sínu horni. Það er von Dalvíkurbyggðar og Ferðatrölla að ferðaþjónustan stilli enn betur strengi sína og af henni sé sameiginlegur kraftur. Ferðatröll er vettvangur til samstarfs. Mætum öll, áhugafólk og fólk starfandi í ferðaþjónustu.
Dagskrá aðalfundar:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar og umræður
3. Reikningar félagsins lagðir fram
4. Lagabreytingar
5. Ákvörðun félagsgjalds
6. Kosning stjórnar og skoðunarmanns
7. Önnur mál
Undir liðnum önnur mál hefur Freyr Antonsson, upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar óskað eftir að fá að ávarpa samkomuna.
Laga breytingar:
Stjórnin leggur til breytingu á 4 grein laga Ferðatrölla:
Greinin er svona:
4. gr.
Stjórn félagsins skipa þrír menn, formaður, gjaldkeri og ritari. Kjósa skal jafn marga til vara. Stjórnin er kosin á aðalfundi og skal skipta með sér verkum. Kjósa skal tvo stjórnarmenn og einn varamann ef aðalfund ber upp á oddatöluári annars skal kjósa einn stjórnarmann og tvo varamenn. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára og skulu ekki sitja lengur en í sex ár í senn. Stjórnin getur falið einstökum félagsmönnum að inna af hendi störf í þágu félagsins og einnig skipað í nefndir sem starfa milli aðalfunda.
Verði svona:
4. gr.
Stjórn félagsins skipa þrír menn, formaður, gjaldkeri og ritari. Stjórnin er kosin á aðalfundi og skal skipta með sér verkum. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn þannig að kosnir eru til skiptis tveir stjórnarmenn annað árið og einn stjórnarmaður hitt árið, og skulu þeir ekki sitja lengur en í sex ár í senn. Kjósa skal jafn marga varamenn, og eru þeir kosnir til eins árs í senn. Stjórnin getur falið einstökum félagsmönnum að inna af hendi störf í þágu félagsins og einnig skipað í nefndir sem starfa milli aðalfunda.
Allir sem hafa áhuga á og hagsmuni af ferðaþjónustu eru hvattir til að mæta á fundinn og taka þátt í stefnumótun félagsins.