Það má með sanni segja að rík söng- og tónlistarhefð sé í Dalvíkurbyggð. Um það vitna fjölmargir listamenn sem sveitarfélagið hefur alið auk allra þeirra kóra og sönghópa sem starfræktir hafa verið í sveitarfélaginu um langa hríð. Tónlistarskóli Dalvíkurbyggðar hefur þar skapað sterkan grunn en skólinn heldur einmitt upp á 50 ára afmæli sitt á þessu ári. Skólinn hefur fóstrað suma af okkar helstu tónlistarmönnum og má þar nefna Friðrik Ómar og Eyþór Inga sem báðir stunduðu nám við Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar.
Í tilefni 50 ára afmælisins var í gær, laugardaginn 7. mars, haldin vegleg afmælisveisla í Bergi menningarhúsi á Dalvík þar sem íbúum og velunnurum skólans var boðið. Þar komu fram gamlir nemendur ásamt núverandi nemendum og kennurum auk þess sem stiklað var á stóru í sögu skólans. Starfemi skólans hefur þróast í gegnum árin en alltaf
hefur verið boðið upp á hefbundið hljóðfæranám . Í dag stunda þar ríflega 100 nemendur nám á fjölmörg hljóðfæri, auk þess sem boðið er upp á söngnám fyrir nemendur á öllum aldri. Til gamans má þess geta að rúmlega 30% allra nemenda á grunnskólaaldri í sveitarfélaginu stunda nám við skólann.
Tónlistarskólinn var stofnaður 1964 að frumkvæði þá nýstofnaðar Tónlistardeildar Svarfaðardals og Dalvíkur. Afmæli hans var því raunar á síðasta ári en af ýmsum ástæðum þurfti að færa afmælisveisluna fram á árið í ár. Fyrsti skólastjóri nýstofnaðs skóla var Gestur Hjörleifsson. Nokkrir skólastjórar hafa starfað síðan þá, lengst af þau Gestur Hjörleifsson og Hlín Torfadóttir, en hún veitti skólanum forstöðu í 19 ár samfleytt og fékk hún sérstaka viðurkenningu á afmælishátíðinni fyrir gott starf í þágu skólans. Í dag er skólastjóri skólans Magnús G. Ólafsson, en árið 2014
gerðu Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð með sér samning um samstarf og stjórnun Tónlistarskóla. Þar kemur meðal annars fram að skólastjóri Tónskóla Fjallabyggðar verði jafnframt skólastjóri Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar en deildarstjóri er staðsettur á Dalvík. Fjölmargir kennarar hafa starfað við skólann í gegnum árin, þar á meðal Ingimar Eydal á árunum 1965-1967 sem kom keyrandi á Skodanum frá Akureyri. Í dag starfa við skólann níu kennarar frá fimm þjóðlöndum en skólinn er einkar lánsamur með sinn kennarakost.
Eins og áður hefur komið fram er mikil tónlistarhefð í Dalvíkurbyggð og má með sanni segja að Tónlistarskóli Dalvíkurbyggðar hafi lagt sitt að mörkum til að viðhalda þeim hefðum. Á sinn hátt myndar hann grundvöllinn undir tónlistarlífið í þessu tæplega 1900 manna byggðarlagi norður undir heimsskautsbaug. Það er þá merki um gott
starf hans á þessum 50 árum að tónlistarlífið í Dalvíkurbyggð er ríkt, auk þess sem vaxtarspírurnar sem skólinn hlúir að blómgast og berast vítt um land.