16. júlí 2007
Veraldarvinir eru nú í heimsókn í Dalvíkurbyggð. Þetta eru 11 einstaklingar frá 8 Evrópulöndum og dvelja þau hér í 2 vikur í umsjón Garðyrkjustjóra. Veraldarvinir eru íslensk sjálfboðaliðasamtök en vinna náið með alþjóðasamtökum sem samanlagt eru starfandi í yfir 120 þjóðlöndum. Dalvíkurbyggð sér þeim fyrir húsnæði og fæði á meðan á dvöl þeirra hér stendur, en þau vinna launalaust að öðru leyti.Verkefnin sem sjálfboðaliðarnir vinna að hér í Dalvíkurbyggð eru í þrennu lagi. Þau taka þátt í hreinsunarátaki í byggðalaginu, og hafa nú þegar gengið meðfram ströndinni á Dalvík, Hauganesi og Árskógssandi og hreinsað upp fleiri fleiri kerrur af alls kyns drasli. En þess má einnig geta að þetta er liður í átaki sem nefnist "Hreinsun strandlengju Íslands". Þá munu þau vinna að stígagerð á nokkrum stöðum, og að lokum munu þau planta út hundruðum bakkaplantna í Brimnesborgir, á Árskógsströnd og sunnan við Böggvisstaðareit. Það er ljóst að þessi hópur mun verða nokkuð áberandi í Byggðalaginu næstu daga, og vonandi verður þeim hvarvetna vel tekið.