Um stöðuna á covid og samtakamátt gegn samfélagssmiti.

Um stöðuna á covid og samtakamátt gegn samfélagssmiti.

Sveitarstjóri hefur undanfarnar vikur setið reglulega upplýsingafundi almannavarnanefndar með lögreglu, heilsugæslu, slökkviliðum  o.fl. vegna Covid. Nú er staðan sú að 90 greindust í gær á landsvísu og er heildartala smitaðra 1141. Enn eru smit í vexti og ljóst að það mun taka lengri tíma fyrir hertar aðgerðir að skila árangri heldur en var í vor þegar það tók um 10 daga.

Á umdæmissvæði lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru núna 13 smit og 78 í sóttkví. Enn eru að greinast aðilar sem eru ekki í sóttkví og því ljóst að veiran er í samfélaginu. Því er mjög mikilvægt að fara eftir þeim reglum sem eru í gildi en ekki síður mikilvægt að fylgja tilmælum sóttvarna. Þ.e. að minnka allt sem heitir hópamyndun og huga að fjarlægð og persónulegum smitvörnum. Umfram allt að vera á tánum til að samfélagið lendi ekki í verri stöðu. Við þurfum að hjálpast að næstu vikur og taka þátt í hertum aðgerðum og tilmælum til að leggja okkar að mörkum í baráttunni gegn veirunni.

Þessum skrifum fylgja þakkir til íbúa Dalvíkurbyggðar fyrir árvekni og aðgætni. Höldum áfram að hjálpast að og vera okkar eigin almannavarnir.

Katrín Sigurjónsdóttir,
Sveitarstjóri.