Október -Tengja
Húsabakka 6. október 2003
Heil og sæl,
fyrsti heili mánuður skólaársins er nú liðinn og margt ánægjulegt hefur gerst í skólastarfinu. Fyrst ber að nefna að nemendur 6. - 8. bekkjar tóku þátt í skólamóti UMSE sem haldið var á Dalvík sl. fimmtudag. Þar var keppt í kúluvarpi, langstökki og 100 m. hlaupi. Verðlaun voru veitt fyrir bestan meðalárangur í hverjum bekk og er skemmst frá því að segja að nemendur okkar komu heim með verðlaun fyrir bestan meðalárangur 6. bekkja og 8. bekkja. Til hamingju Húsabakki .
Næst ber að nefna að nú hafa nemendur lesið meira en 10.000 blaðsíður síðan 1. september. Af því tilefni gæddu nemendur sér á ís í upplestrarstund bekkjanna. Nú er takmarkið að hali bókaskrímslisins komist alla leið niður á ,,stjörnupall"
Eldri nemendur eru farnir að heimsækja leikskólann einu sinni í viku til þess að lesa upphátt fyrir nemendur leikskólans. Einn nemandi úr námshópnum 5. - 8. bekkur velur sér bók, æfir sig og fylgir svo leikskólabörnunum úr morgunmat og les fyrir þau. Bæði nemendur leikskólans og þeir sem hafa lesið fyrir þau finnst þetta skemmtileg tilbreyting í skólastarfinu.
Samræmdu prófin í 4. og 7. bekk:
Fimmtudaginn 16. og föstudaginn 17. október verða samræmd próf í stærðfræði og íslensku. Foreldrar nemenda í þessum bekkjum hafa fengið upplýsingar um prófin frá umsjónarkennurum bekkjanna.
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands heldur tónleika:
Þriðjudaginn 21. október kl. 11:30-12:00 heldur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands tónleika í stóra salnum á Rimum. Allir eru velkomnir á tónleikana.
Danskennsla:
Fyrri lotu vetrarins í danskennslu lýkur 21. október.
Starfsdagur kennara:
Föstudaginn 24. október er starfsdagur hjá kennurum og frí hjá nemendum.
Samvera á sal:
Föstudaginn 31. október kl. 8:40-9:10 verður samvera með söng og upplestri í litla salnum á Rimum. Allir eru velkomnir.
Kvöldvaka og gisting:
Næsta kvöldvaka og gisting verður þriðjudaginn 28. október. Undirrituð gleymdi að setja þá dagsetningu á ,,sjálfboðaliðablaðið" sem lá frammi á haustfundi foreldra þannig að okkur vantar einhverja tvo sem vilja taka að sér nætuvakt á októbergistingunni. Vinsamlegast látið okkur vita ef þið getið orðið við þessari ósk.
Námskeið á Húsabakka:
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hefur komið því í kring að haldin verða tvö námskeið á Húsabakka nú fyrir jól. Annað námskeiðanna er tölvunámskeið og hitt er námskeið í konfektgerð. Allar upplýsingar um námskeiðin er að finna í bréfi sem fylgir Tengju. Ef einhverjar aðrar upplýsingar vantar hafið þá samband við skólann.
Við á Húsabakka höfum í framtíðinni í hyggju að bjóða upp á tvö námskeið fyrir fullorðna á hvoru misseri skólaársins. Annað þeirra hugsum við sem stærra námskeið eins og t.d. tölvunámskeiðið sem nú er í boði og hitt styttra. Ef þið hafið einhverjar óskir um námskeið sem þið gætuð hugsað ykkur að sækja eða að þið viljið halda námskeið hafið þá samband við skólann og við sjáum hvað við getum gert.
Framkvæmdir:
Leiktækin hafa nú staðið í nokkrar vikur á skólalóðinni án þess að hægt sé að leika sér í þeim. Ástæða þess er að erfitt hefur reynst að fá mölina sem á að setja undir tækin. Steinvölurnar í mölinni sem hér um ræðir á að vera að ákveðinni stærð og lögun til þess að fyrirbyggja slys á börnum og öðrum sem leika sér í leiktækjunum. Í hverri viku höfum við haldið að nú hylli undir að tækin komist á sinn stað og í notkun en svo hefur ekki orðið hingað til. Þannig að við getum ekki annað gert en beðið eftir mölinni og látið okkur hlakka til.
Annað:
Minnum á heimasíðuna okkar http://husabakkaskoli.ismennt.is/ . Á henni er að finna fréttir og myndir úr skólalífinu.
Með kveðju frá Húsabakka
Ingileif