Frá því í byrjun árs 2014 hafa sveitarfélögin Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð verið í samstarfi er lýtur að því að hafa einn skólastjóra yfir tónlistarskólum sveitarfélaganna og það samstarf hefur gengið ágætlega. Þessi tveir skólar höfðu einnig langa sögu um samnýtingu á tónlistarkennurum í gegnum árin. Í samningi sem var gerður um þetta samstarf var ákvæði þar sem lýst var yfir vilja til frekara samstarfs og jafnvel yrði skrefið stigið til fulls og skólarnir sameinaðir. Í febrúar 2015 var fræðslustjórum sveitarfélaganna falið að hefjast handa við að formgera samning með það að markmiði að Tónskóli Fjallabyggðar og Tónlistarskóli Dalvíkurbyggðar yrðu sameinaðir í einn skóla.
Það sem lagt var upp með er að kostir við sameiningu eru bæði faglegir og rekstrarlegir og var áætlað að sparnaður í starfsmannahaldi yrði um 12 milljón krónur á ári, miðað við forsendur og verðlag þá. Skólinn yrði áfram rekinn í bæjarfélögunum þremur; Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði og því lítið að breytast nema í stjórnun skólanna. Öllum nemendum í grunnskóla yrði gefinn kostur á því að stunda tónlistarnám sitt sem hluta af samfelldum skóladegi.
Tónlistarskólahúsnæði í Ólafsfirði
Tónlistarskólahúsnæði á Siglufirði
Þegar Tónlistarskólinn á Tröllaskaga var stofnaður 25. ágúst 2016, gerðu sveitarfélögin Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð samning til þriggja ára um sameiginlegan rekstur tónlistarskóla fyrir bæði sveitarfélögin undir heitinu Tónlistarskólinn á Tröllaskaga. Dalvíkurbyggð hefur haldið utan um alla stjórnsýslu skólans samkvæmt samningi, sveitafélögin sjá um laun og launatengd gjöld og skólagjöld standa síðan undir öðrum kostnaði.
Samkvæmt samningnum er markmið tónlistarskólans að efla tónlistarþekkingu og iðkun tónlistar, auk þess að stuðla að eflingu tónlistarlífs í aðildarsveitarfélögunum. Fimm fulltrúar sveitarfélaganna sitja í skólanefnd, formaður og embættismaður frá Fjallabyggð og tveir skólanefndarfulltrúar ásamt embættismanni frá Dalvíkurbyggð ásamt skólastjóra og trúnaðarmanni kennara. Foreldrakannanir sem gerðar hafa verið sýna að við erum á góðri leið með skólann okkar og eigum eftir að gera enn betur.
Þessum markmiðum hyggst skólinn ná meðal annars með því að:
- Verða ein af menningarstoðum samfélagsins á Tröllaskaga og taka virkan þátt í menningarlífinu.
- Annast kennslu í hljóðfæraleik og söng ásamt kennslu í öðrum tónlistargreinum sem gert er ráð fyrir í aðalnámskrá tónlistarskóla.
- Bjóða upp á kennslu í sem flestum greinum tónlistar þar sem börnum jafnt sem fullorðnum gefst kostur á að stunda tónlistarnám eftir því sem aðstæður leyfa.
- Búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu.
- Leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik og hljómsveitarstarfi.
- Búa nemendur undir framhaldsnám í tónlist.
- Styðja kennara skólans til tónleikahalds.
- Öllum nemendum í 1. – 10. bekk grunnskóla sveitarfélaganna verði gefinn kostur á að stunda tónlistarnám sitt sem hluta af samfelldum skóladegi.
Í Aðalnámskrá tónlistarskólanna kemur fram að tónlistarskóli skal vera opinn öllum og sinna almennu tónlistaruppeldi. Tónlistarskólinn þarf því að uppfylla mismunandi kröfur, vera fyrir nemendur sem læra einungis sér til skemmtunar og fyrir nemendur sem vilja búa sig undir metnaðarfullt tónlistarnám og skyldar greinar á háskólastigi. Ekki síst er mikilvægt það hlutverk að kenna nemendum að njóta tónlistar. Tónlistarskólinn skal stuðla að auknu tónlistarlífi í samfélaginu.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að tónlistarnám hefur bætandi áhrif á annað nám sérstaklega í raungreinum. Tónlistarnám eykur einbeitingu og stuðlar að betri vinnubrögðum hjá nemendum. Auk þess hefur tónlist og tónlistaiðkun bætandi áhrif á sálarlífið og stuðlar að gleði og lífsfyllingu.
Tónlist hefur róandi áhrif á alla, samleikur og kórsöngur stuðlar að meiri félagsþroska hjá börnum.
Nemendur Tónlistarskólans skulu vera sýnilegir á hinum ýmsu samkomum í þeirra byggðarkjörnum og þannig efla stöðu tónlistar í sínu samfélagi. Æskilegt er að nemendur jafnt sem kennarar fái tækifæri til að stunda list sína og samfélagið njóti þess. Í dag stunda rúmlega 200 nemendur nám við skólann, frá 1. upp í 10. bekk og nokkrir fullorðnir nemendur. Kennarar skólans eru 15 í dag og er kennt á flesta hljóðfæraflokka, ásamt því sér skólinn um alla tónlistarkennslu fyrir nemendur grunnskóla og tónlistarbraut MTR.
Markmið með sameiningu:
- Kapp verður lagt á að viðhalda þeim góða starfsanda sem í Tónlistarskólanum ríkir.
- Stærri starfsmannahópur og því meiri svigrúm til að bregðast við áföllum, s.s. veikindum, fækkun eða fjölgun nemenda á ákveðnum hljóðfærum.
- Þegar starfsmannahópurinn er stærri er meiri þekking og breidd innan hans og því mögulegt fyrir kennara að læra af samstarfsfélögum sínum.
- Kennarar sem hafa sérhæft sig á ákveðin hljóðfæri geta því sinnt þeim nemendum betur og skólarnir ná fram betri kennsluaðferðum og árangri.
- Hagkvæmari símenntunarmöguleikar til staðar fyrir kennara og hlutfallslega ódýrara fyrir skólann að bjóða upp á símenntun.
- Mögulegt er að nemendur sem staddir eru á svipuðum stað í tónlistarnámi hittist í auknu mæli og spili saman á sérstökum æfingum t.d. fyrir tónleika. Jafnframt er tækifæri til að skoða hópkennslu í auknum mæli bæði innan skólanna og milli þeirra.
- Nýir möguleikar til hljóðfæranáms, með enn meiri nálgun við Menntaskólann á Tröllaskaga
- Með tilkomu rafrænnar dagbókar og með meiri samskiptum við foreldra og forráðamenn verður lagt mat á árangur nemenda reglubundnar en áður hefur verið.
- Meiri áhersla verður lögð á samspil, hljómsveitarstarf og upptökur innan skólans og hver kennari verður að koma að samspili eða hljómsveitastarfi.
- Skapandi tónlist en þar er hægt að sækja um og útskrifast sem stúdent frá MTR.
Vonandi verður þessi grein til þess að hvetja fólk til að kynna sér betur Tónlistarskólann á Tröllaskaga og taka virkan þátt í því starfi sem þar fer fram. Tónlistarskólinn er ekki bara fyrir börn heldur líka fullorðna og allir sem áhuga hafa á tónlist geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi.
Skólinn er í stöðugri þróun og ætíð er leitast við að efla tónlistarkennslu í samræmi við nútímakröfur.
Tónlistarskólinn er með heimasíðu tat.is og fésbókarsíðu til þess að efla upplýsingaflæði til samfélagsins.
Að lokum þakka ég Þorsteini Björnssyni fyrir áskorunina og skora á Gísla Rúnar Gylfason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa að koma með næsta fréttaskot.
Með sólskinskveðju,
Magnús G. Ólafsson
Skólastjóri Tónlistarskólans á Tröllaskaga.