Nú þegar byrjað er að vora, sólin hækkar á lofti og snjórinn er á miklu undanhaldi, kemur margt í ljós í nærumhverfi okkar sem á alls ekki heima þar. Alls konar rusl blasir við og þar eru plasthlutir og plastumbúðir mest áberandi.
Sem betur fer hefur mikil vitundarvakning orðið í samfélaginu okkar hvað varðar skaðsemi plasts í umhverfinu á liðnum árum og þess vegna er frábært að sjá sífellt fleiri plokka og leggja sitt af mörkum við að koma rusli í viðeigandi farveg.
Við hjá Dalvíkurbyggð fögnum plokkurum og þeirra starfi og höfum því ákveðið að launa þeim greiðann með því að sækja plokkið hjá þeim sem það kjósa og koma því í endurvinnslu.
Við hvetjum auðvitað alla til að flokka, þá sérstaklega plastið, svo hægt sé að endurnýta það.
Þeir sem kjósa að nýta sér "plokk-heimtu" er bent á að hafa samband við starfsmenn Eigna- og framkvæmdardeildar í síma 698-3280 (Kristján).