Það er afar mikið um að vera í Dalvíkurbyggð þessa dagana.
Það eru skip við alla hafnargarða eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og þar af leiðandi mikið líf í Dalvíkurhöfn. Við gleðjumst við svona sjón.
Heyskapur er á fullu um allt og miklar framkvæmdir hafa einnig verið í gangi undanfarið.
Vegagerðin hefur verið síðustu vikur að vinna í undirbúningi fyrir nýtt malbik á Hafnarbraut og Skíðabraut og er þeim framkvæmdum nú lokið.
Þá er samvinnuverkefni Dalvíkurbyggðar og Vegagerðarinnar, göngustígur frá Olís og að afleggjara að Böggvisstöðum, komin á fullt og verður gaman að fylgjast með þeirri framkvæmd.
Á dögunum kom út listi frá vefsíðunni 10BestUSAToday um 10 áfangastaði á Íslandi sem teljast að mati greinarhöfundar mest földu perlurnar sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það er afskaplega gaman að segja frá því að áfangastaðurinn Hauganes kemur 2 sinnum fram á 10 atriða lista! Annars vegar vegna sjópottanna við Sandvíkurfjöru og hins vegar vegna möguleika á skoðunarferð um vinnslu Ektafisks sem greinarhöfundur segir að sé einstakt.
Þá tók Bruggsmiðjan Kaldi í notkun nýja vél sem framleiðir Kalda í dósir og hefur fengið mikla umfjöllun vegna þess. Mikil aðsókn hefur einnig verið í Bjórböðin sem eru auðvitað ein sinnar tegundar hér á landi.
Fyrir utan þá upptalningu sem hér hefur átt sér stað er líka gaman að sjá öll ungmennin úr vinnuskólanum vinna að því að gera byggðalagið okkar fallegt fyrir íbúana og ferðamennina sem hafa verið að koma til okkar undanfarið.
Það er svo sannarlega líf og fjör í Dalvíkurbyggð og því ber að fagna!