Krílakot í sóttkví fram að næstu helgi.

Krílakot í sóttkví fram að næstu helgi.

Nú er komið í ljós að 4 starfsmenn leikskólans Krílakots hafa fengið staðfest smit. Samkvæmt tilmælum sóttvarnaryfirvalda hefur verið tekin sú ákvörðun að allir starfsmenn og öll börn að fari í sóttkví fram að næstu helgi, eða til og með föstudeginum 6. nóvember. 

Nú er mikilvægt að við stöndum öll saman, förum að fyrirmælum og kveðum þessa veiru í kútinn þannig að daglegt líf geti hafist sem fyrst. Það er sameiginlegt markmið okkar allra.

Guðrún Halldóra Jóhannsdóttir,
leikskólastjóri Krílakots.

___________________________________________________________________________________________________________

Við viljum hvetja alla íbúa byggðarlagsins að halda sig til hlés næstu daga og hitta engan sem ekki tilheyrir innsta hring.
Núna skiptir öllu máli að halda í jákvæðnina og vera bjartsýnn. Það gengur allt svo miklu betur þegar allir reyna sitt besta! Sýnum samheldnina og bjartsýnina sem hefur reynst okkur svo vel. 

VIð biðjum alla að kynna sér til hlítar neðangreindar upplýsingar og hvetjum ykkur til að vera vel upplýst um allt sem varðar sóttkví, hvort sem um ræðir úrvinnslusóttkví eða sóttkví í heimahúsi 

Úrvinnslusóttkví:
‍Úrvinnslusóttkví er sóttkví sem stendur yfir á meðan unnið er að smitrakningu. Þá fylgir þú þeim leiðbeiningum sem gilda um sóttkví þar til vitað er hvort þú þurfir að fara í sóttkví. Athygli er vakin á því að í úrvinnslusóttkví fara ekki allir í sýnatöku nema þeir fái skilaboð um slíkt.

Sóttkví eftir þekkta útsetningu fyrir COVID-19 sjúkdómi (tengsla eða nánd við sýktan einstakling):
Varir í 14 daga frá síðustu útsetningu eða þar til einkenni koma fram, en ef einkenni koma fram og COVID-19 sjúkdómur er staðfestur þarf að fylgja leiðbeiningum um einangrun. Sóttkví getur einnig lengst ef frekari útsetning á sér stað (t.d. annar á heimili greinist með sjúkdóminn). Hægt er að stytta sóttkví eftir 7 daga með sýnatöku hjá einkennalausum. Ef niðurstaða sýnatöku er neikvæð þá er sóttkví hætt. Næstu 7 dagana þurfa þeir samt að gæta vel að sínum sóttvörnum og forðast samneyti við viðkvæma einstaklinga. Sýnataka þessi er einstakling að kostnaðarlausu. Ef veira finnst og einstaklingur greinist með COVID-19 fer viðkomandi í einangrun og tengiliðir í sóttkví ef við á. Þeir sem eru í sóttkví á sama heimili og sýktur einstaklingur geta ekki stytt sóttkví og þeir eiga ekki að mæta í sýnatöku nema þeir séu alveg aðskildir frá hinum sýkta á heimilinu í 7 daga.

Leiðbeiningar fyrir almenning um úrvinnslusóttkví og sóttkví í heimahúsi
Leiðbeiningar fyrir almenning um einangrun