Janúar -Tengja
Húsabakka 5. janúar 2005
Heil og sæl,
gleðilegt ár og takk fyrir það sem liðið er.
Nú eru allir komnir í skólann eftir jólafrí eftir sem lengdist óvænt um einn dag vegna ófærðar. Við skulum vona að tíðarfarið verði á þann veg að við getum haldið uppi skólastarfi eins og áætlað er.
Þrettándabrennan:
Fimmtudaginn 6. janúar kl. 20:30 verður, ef veður leyfir, kveikt í þrettándabrennu Foreldrafélags Húsabakkaskóla. Að venju verður samsöngur undir stjórn Hjörleifs, Björgunarsveit Dalvíkur verður með flugeldasýningu og Foreldrafélagið býður upp á heitt kakó og kex.
Foreldrar eru beðnir um að brýna fyrir börnum sínum notkun öryggisgleraugna og að þau fari varlega með flugelda og blys.
Söngur á sal:
Söngur á sal verður mánudagana 10. og 24. janúar í litla salnum á Rimum kl. 11:25 til 11:55. Allir eru velkomnir.
Fyrsta kvöldvaka og gisting ársins:
Fyrsta kvöldvaka og gisting ársins 2005 verður þriðjudaginn 25. janúar. Okkur vantar 2 foreldra sem geta verið á næturvakt. Vinsamlegast hafið samband við skólastjóra fyrir 20. janúar ef þið sjáið ykkur fært að vera á vakt.
Foreldrastarfið á Húsabakka:
Okkur vantar foreldra í nokkur störf fram á vorið, vinsamlegast hafið samband við Ingileif eða Kristínu á Bakka ef þið sjáið ykkur fært að taka einhver af þeim að ykkur. Talan innan sviga táknar fjölda starfa:
Undirbúningur öskudags (1)
Umsjón með kaffi á öskudag (2)
Næturvakt á gistingu eldri nemenda 16. mars (2)
Næturvakt á gistingu eldri nemenda 26. apríl (2)
Grill á síðasta skóladegi (1)
Umsjón með leikjum eftir grill síðasta skóladag 26. maí (2)
Hækkun gjaldskráa:
Frá og með síðustu áramótum hækkaði gjaldskrá leikskóladeildarinnar um 5% og gjaldskrá mötuneytisins um 10%.
Sundkennsla 1. og 2. bekkjar:
Sundkennsla yngstu barnanna á haustönn er lokið. Kennslan hefst aftur þegar tekur að vora og hlýna. Sundtíminn er nú orðinn að tíma hjá umsjónarkennara.
Kennaranemar:
Kennaranemarnir Erna og Marín sem komu hingað í verkfallinu eru nú komnir aftur til þess að ljúka vettvangsnámi sínu. Þær verða hjá okkur til 21. janúar. Þær verða eins og áður að mestu við íslenskukennslu í 4. - 8. bekk.
Fullorðinsfræðslan á Húsabakka:
Af ýmsum ástæðum hefur engin fullorðinsfræðsla verið á haustönn þessa skólaárs. Á vorönninni verður boðið upp á eftirfarandi námskeið:
Námskeið í ullarþæfingu
Kennari: Ingibjörg Kristinsdóttir (Lilla)
Fjöldi skipta: Fjögur kvöld
Hvenær: Fim. 20. og 27. jan. og þri. 1. og 8. feb.
Kl. 20:00-23:00
Hvar; Ytra húsinu á Húsabakka.
Kostnaður: kr. 8.000,- auk efnisgjalds sem fer eftir því hve mikið efni nemendur nota á námskeiðinu.
Lágmarksfjöldi: Fimm
Hámarksfjöldi: Tíu
Skráning: Fyrir 17. janúar í síma 466-1551 eða á netfanginu husabakki@dalvik.is
Fyrirlestrar um Hallgrím Pétursson
og
Passíusálmana
Í samvinnu við Eyjafjarðarprófastsdæmi verður í febrúar boðið uppá þrjá fyrirlestra um Hallgrím Pétursson og Passíusálmana. Enginn aðgangseyrir er að fyrirlestrunum og getur fólk mætt á þá alla eða einungis þá sem þeir velja úr. Við viljum samt biðja fólk um að skrá sig í síma 466-1551 eða á netfanginu husabakki@dalvik.is í síðasta lagi mánudaginn 31. janúar.
Í framhaldi af þessum fyrirlestrum er hugmyndin að koma saman hópi fólks sem er tilbúið að lesa Passíusálmana í kirkjunum í Svarfaðardal og á Dalvík á föstudaginn langa.
Auglýsing með nánari upplýsingum um innihald hvers fyrirlestrar ásamt staðfestum dagsetningum verður send út þegar nær dregur.
Fimmtudaginn 3. febrúar kl. 20:30 að Rimum
Sigríður Munda Jónsdóttir sóknarprestur í Ólafsfirði fjallar um ævi og starf Hallgríms Péturssonar.
Fimmtudaginn 10. febrúar kl. 20:30 að Rimum
Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur Eyjafjarðarprófastsdæmis fjallar á myndrænan hátt um Passíusálmana og píslarsöguna.
Fimmtudaginn 17. febrúar kl. 20:30 að Rimum
Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur sem m.a. hefur skrifað Reisubók Guðríðar Símonardóttur, fjallar um skáldið Hallgrím Pétursson.
Tölvunámskeið og bakstur ítalskra brauða
Í mars og apríl er fyrirhugað að halda stutt tölvunámskeið í notkun forritsins Photo Shop þar sem farið er yfir skönnun og stafrænar myndavélar. Einnig er í bígerð að fá til okkar matreiðslumeistarann Friðrik V. Karlsson (Friðrik fimmta) til þess að leiðbeina okkur í bakstri ítalskra brauða. En allar upplýsingar um þau námskeið verða sendar út þegar nær dregur.
Með kveðju frá Húsabakka,
Ingileif