HÁSKÓLI UNGA FÓLKSINS - SKRÁNING ER HAFIN Á www.ung.is
Um miðjan júní tekur Háskóli Íslands á sig nýjan blæ, þegar kennsla hefst í fyrsta sinn í Háskóla unga fólksins. Nemendur skólans verða á aldrinum 12-16 ára, þ.e. börn og unglingar fædd 1988-91, og geta allir sem fæddir eru á þessu árabili skráð sig í skólann. Skólahaldið mun standa dagana 14.-19. júní og í boði verða 22 stutt en hnitmiðuð námskeið úr hinum ýmsu deildum og skorum Háskóla Íslands.
Gert er ráð fyrir rúmlega 200 nemendum í skólanum. Hver nemandi um sig velur allt að átta námskeið af þeim sem í boði eru og setur þannig saman sína eigin stundatöflu. Meðal þess sem nemendurnir geta tekist á hendur má nefna:
- vettvangsferð á slóðir fornleifa á Þingvöllum
- greining á stöðu fjölmiðla í samtímanum
- fuglaskoðun í Vatnsmýrinni og við Tjörnina
- rannsóknir á svefni, öndun og heilaritum
- mælingar á hárþykkt
- umræður um trúarleg stef í kvikmyndum
- greining á kynjamynstrum og kynhlutverkum
- bollaleggingar um samfélagslegt hlutverk brandara
Þar að auki munu nemendur eiga þess kost að
- læra ýmis undirstöðuatriði í spænsku og þýsku
- greina missýnir, ályktunarvillur og ranghugmyndir
- sjúkdómsgreina vélar
- ræða markmið og árangur fyrirtækja
- beita bestun til að leysa hagnýt vandamál
- læra aðferðir til að anda betur
- kynnast ólíkum myndum orkunnar
- takast á við spurninguna "hvað er það að vera sá sem ég er?"
Í lok vikunnar verður brautskráningar- og uppskeruhátíð á flötinni framan við Aðalbyggingu Háskóla Íslands með afhendingu brautskráningarskjala, söng og gleði.
Skráning nemenda í Háskóla unga fólksins hófst laugardaginn 15. maí og stendur nú sem hæst. Skráningin fer fram á vef Háskóla unga fólksins, www.ung.is. Skráningargjald er 10 þúsund krónur og innifalið í því eru allt að 8 námskeið, kennslugögn og léttur hádegisverður alla skóladagana. Allar nánari upplýsingar um Háskóla unga fólksins má fá á www.ung.is.