Dalvíkurbyggð fékk á dögunum úthlutað fyrsta „græna“ láni Lánasjóðs sveitarfélaga, 90 miljónum króna. Það er Hafnasjóður Dalvíkurbyggðar sem hefur lánið vegna hafnaframkvæmda við Austurgarð en þar er lögð áhersla á endurnýjanlega orku og orkunýtni með öflugum rafmagnstengingum og tengingum skipa við heitt vatn til upphitunar. Einnig standa yfir umhverfisvænar framkvæmdir hjá Fráveitu Dalvíkurbyggðar við að koma á 1. stigs hreinsistöðvum við öll útræsi í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt lántökuna og kynnt sér gildandi græna umgjörð Lánasjóðs sveitarfélaga og samþykkir að ráðstöfun lánsins falli að henni.
Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun lánssamningsins og eru á henni f.v. Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð og Þórdís Sveinsdóttir, lánastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga.