Bæjarráð mótmælir ...

Á 224. fundi bæjarráðs Dalvíkurbyggðar þann 10. apríl 2003 var til umfjöllunar erindi frá félagsmálaráðuneytinu um húsaleigubætur, bréf dagsett þann 24. mars 2003, þar sem m.a. kemur fram að áætlað fjármagn sem til ráðstöfunar er úr Jöfnunarsjóði á árinu 2003 vegna greiðslu sveitarfélaga á húsaleigubótum er allt að 536.0 m.kr.  Heildargreiðslur sveitarfélaga á húsaleigubótum í ár (2003) á grundvelli innsendra áætlana sveitarfélaga frá 1. mars sl. nema samtals 1.162 m.kr., hlutur sveitarfélaga er því 54% (í stað 40%) en ríkisins 46% (í stað 60%).   Um er að ræða 24,3% hækkun á greiðslum sveitarfélaga á milli ára m.v. rauntölur ársins 2002.

Á fundinum var jafnframt lagt fram samantekt frá félagsþjónustusviði yfir greiddar húsaleigurbætur í Dalvíkurbyggð frá 1995-2002.  Greiddar húsaleigubætur 1995 voru kr. 2.081.631,- en voru kr. 9.467.272,- árið 2002.  Hlutur ríkisins 2002 var 55%.

Í framhaldi af umfjöllun bæjarráðs var félagsmálaráðuneytinu sent erindi, dagsett þann 14. júlí 2003, þar sem fram kemur eftirfarandi:

"Bæjarráð Dalvíkurbyggðar hefur haft til umfjöllunar bréf ráðuneytisins dags. 24. mars 2003 og varðar framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til greiðslu húsaleigubóta. Með því að framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er nú ákvarðað 46% , sem áður var 60%, má ætla að hlutur sveitarfélaga í greiðslu húsaleigubóta hækki um 163 m.kr. á árinu 2003 miðað við innsendar áætlanir sveitarfélaga ( 1.162 m.kr.).

Það er álit bæjarráðs Dalvíkurbyggðar að meginmarkmið laga um húsaleigubætur séu hliðstæð lagaákvæðum um barnabætur, þ.e. feli í sér tekjujöfnun og aðstöðujöfnun borgara landsins. Því beri að vista framkvæmd þessara laga alfarið hjá ríkinu enda er allt ákvörðunarvald um húsaleigubætur hjá ríkinu.

Þess er jafnframt óskað, að Samband ísl. sveitarfélaga taki til sérstakrar skoðunar þann kostnaðarauka sem umrædd breyting hefur í för með sér.

Ofangreindri skoðun bæjarráðs Dalvíkurbyggðar er hér með komið á framfæri."

Svarbréf barst síðan frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett þann 26. ágúst 2003, þar sem fram kemur  að fjallað hafi verið um erindi Dalvíkurbyggðar frá 14. júí 2003 á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 22. ágúst 2003.   Að öðru leiti segir í svari Sambandsins:

"Formaður og framkvæmdastjóri hafa þegar átt viðræður við félagsmálaráðherra um að framlög Jöfunarsjóðs sveitarfélaga vegna húsaleigubóta verði 55% eins og að var stefnt með samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 4. desember 2003.

Nokkrir stjórnarmenn lýstu því sjónarmiði sínu að eðlilegast væri að ríkið fjármagnaði húsaleigubætur eins og vaxtabætur.  Samþykkt var að óska eftir því að málið verði að öðru leyti tekið upp í nefnd sem skipuð verður á næstunni til að gera tillögur um aðlögun tekjustofnakerfis sveitarfélaga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að nýrri sveitarfélagaskipan."

Í svarbréfi félagsmálaráðuneytisins, dagsett þann 6. september 2003, kemur fram að ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fjallaði um erindi Dalvíkurbyggðar frá 14. júlí 2003 á fundi sínum þann 28. ágúst 2003.  Í svari ráðuneytisins kemur í aðalatriðum fram:

"Ráðgjafarnefndin samþykkti að leggja til að erindinu yrði vísað til Sambands íslenskra sveitarfélaga til umfjöllunar.

Með tilvísun til þess sem fram kemur í erindi yðar varðandi greiðsluhlutfall Jöfnunarsjóðs vegna greiðslna sveitarfélaga á húsaleigubótum þá er rétt að taka  það fram að hlutfallið hefur verð 58% nú síðustu árin."

Á 260. fundi bæjarráðs Dalvíkurbyggðar þann 18. desember 2003 var tekið fyrir erindi frá félagsmálaráðuneytinu, bréf dagsett þann 15. desember 2003, þar sem fjallað er um húsaleigubætur  og greiðsluprósentu Jöfnunarsjóðs á árinu 2004 vegna greiðslu sveitarfélaga á húsaleigubótum.

Í bréfi ráðuneytisins kemur fram  m.a. að ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs samþykkti á fundi sínum 5. desember sl. að gera tillögu til félagsmálaráðherra um að áætlað greiðsluhlutfall Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2004 næmi 40% vegna greiðslu sveitarfélaga á húsaleigubótum.  Félagsmálaráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafanefndar.

Í fundargerð bæjarráðs frá 18. desember 2003 í umfjöllun um ofangreint erindi kemur fram að í fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2004 er gert ráð fyrir greiðslu húsaleigubóta að fjárhæð 13 m.kr. og framlagi  frá Jöfnunarsjóði að fjárhæð 6,8 m.kr eða um 52%.   Ofangreind breyting þýðir því lækkun framlags frá Jöfnunarsjóði um 1,6 m. kr. miðað við framlagðar forsendur.

Eftirfarandi bókun var gerð á fundinum:

Bæjarráð mótmælir harðlega enn frekari lækkun á greiðsluprósentu Jöfnunarsjóðs vegna greiðslu sveitarfélaga á húsaleigubótum og ítrekar að öðru leiti áðursent erindi frá Dalvíkurbyggð til félagsmálaráðuneytisins um sama mál.

Ofangreind fundargerð bæjarráðs frá 18.12.2003 var til umfjöllunar og afgreiðslu í bæjarstjórn 27. janúar 2004.

 

Tekið saman af GPJ.