Sviðsstjóri félagsmálasviðs fór yfir stöðuna á verkefninu Gott að eldast. En í nóvember sl. var undirritaður samningur þess efnis að Dalbær tekur yfir rekstur heimilisþjónustu og heimahjúkrunar undir merkjum þróunarverkefnisins "Gott að eldast". Þróunarverkefni þetta er hluti af aðgerðaráætlun á vegum Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og Heilbrigðisráðuneytis um þjónustu við eldra fólk. Samþætting í félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða í aldraða í heimahúsum er einn liður í aðgerðaráætluninni og voru valin nokkur svæði á landinu til að taka þátt í þróun samþættrar heimaþjónustu. Lykilatriði samþættingarinnar er að reksturinn sé á einni hendi og hér á okkar svæði varð niðurstaðan sú að samið var við Dalbæ um þennan rekstur.
Tilgangur og markmið verkefnisins eru fyrst og fremst að samþætta þá þjónustu og stuðning sem aldraðir eiga kost á í heimahúsum, einfalda boðleiðir, vinna að betri nýtingu mannauðs, endurskoða verkferla og vinnulag, vinna að aukinni nýtingu velferðatækni og ýta undir og styðja sjálfsbjargargetu, virkni og ábyrgð einstaklinganna.
Nýja samþætta heimaþjónustan tók formlega til starfa 1. febrúar undir nafninu heimastuðningur Dalvíkurbyggðar. Stjórnendateymi Heimastuðnings eru: Guðrún Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur og dfeildarstjóri, Kristín Heiða Halldórsdóttir, iðjuþjálfi og stjórnandi heimaendurhæfingar og Ingunn Magnúsdóttir, tengiráðgjafi. Með þeim starfar svo hópur starfsmanna sem flestir voru starfsmenn félagsþjónustu og sinntu störfum í heimilisþjónustu.
Markmið Heimastuðnings er að stuðla að auknum lífsgæðum eldri borgara Dalvíkurbyggðar, tryggja samfellu í þjónustu og einfaldar boðleiðir. Að geta veitt kvöld- og helgarþjónustu og hafa möguleika á næturþjónustu. Að nýta mannauðinn betur með aukinni teymisvinnu, samvinnu og endurskipulagi á verkferlum. Auka samstarf við dagdvölina á Dalbæ og vinna að því að rjúfa einangrun eldra fólks og viðhalda sjálfstæði þeirra. Að nýta velferðartækni til að auka sjálfstæði og öryggi. Einnig að þróa breyttar áherslur í stuðningsþjónustu, ýta undir virkni og sjálfsbjargargetu með aukinni áherslu á endurhæfingu og eflingu sjálfshjálpar og sjálfstæðis. Og að vinna að forvörnum með fræðslu, ráðgjöf og stuðningi.
Lagt fram til kynningar.