Byggðaráð

763. fundur 07. janúar 2016 kl. 13:00 - 15:52 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Formaður
  • Kristján Guðmundsson Varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Bjarni Theódór Bjarnason Sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sviðstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Málefni Húsabakka

Málsnúmer 201408038Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Börkur Þór Ottósson, sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs, og Þorsteinn K. Björnsson, sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs.



Á 762. fundi byggðaráðs þann 17. desember 2015 var meðal annars eftirfarandi bókað:

"Hugmynd að samkomulagi við Húsabakka ehf. var send til stjórnar Húsabakka í bréfi dagsettu þann 18. nóvember 2015. Með fundarboði byggðaráðs fylgdi rafbréf dagsett þann 14. desember 2015 sem er svar Húsabakka ehf. við ofangreindu erindi Dalvíkurbyggðar. Fram kemur meðal annars að almennur hluthafafundur Húsabakka ehf. samþykkti að fela stjórn og framkvæmdarstjóra að ganga til samninga við Dalvíkurbyggð á grundvelli erindis frá 18/11 2015. Börkur Þór vék af fundi kl. 13:58. Til umræðu ofangreint.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs, í samráði við lögmann sveitarfélagsins, að vinna drög að samkomulagi við Húsabakka ehf. Stefnt skuli að því að drögin verði tekin fyrir á fundi byggðaráðs 7. janúar 2016."



Með fundarboði byggðaráðs fylgdu drög að samkomulagi við Húsabakka ehf. um lok leigusamnings um húsnæði að Húsabakka, Svarfaðardal.



Í 5. gr. samkomulagsins kemur fram að samhliða lokum leigusamnings þessa skal fara fram uppgjör milli aðila á grundvelli 4. gr. leigusamningsins vegna varanlegra breytinga innandyra sem gerðar hafa verið með samþykki leigusala og leigutaki hefur greitt fyrir, sem og vegna lausafjár sbr. 10. gr. leigusamningsins, ef við á. Gert er ráð fyrir að með samkomulaginu fylgi skjal sem er tæmandi yfirlit yfir breytingar og endurbætur sem leigusali greiðir leigutaka fyrir, ásamt sundurliðun.



Börkur Þór og Þorsteinn kynntu yfirferð þeirra á þeim breytingum og endurbótum sem gerðar hafa verið á húsnæði Húsabakka á leigutíma og í drögum að fylgiskjali kemur fram mat þeirra á hvaða viðhaldsframkvæmdir falla undir skilgreiningu 4. gr. leigusamningsins og fjárhæðir.



Til umræðu ofangreint.



Börkur Þór og Þorsteinn viku af fundi kl. 13:22
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að ganga til samninga við stjórn Húsabakka ehf. á grundvelli draga að samkomulagi um lok leigusamningsins og á grundvelli greinargerðar sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs og veitu- og hafnasviðs.

Stefnt skuli að því að málið verði tekið fyrir að nýju á næsta fundi ráðsins.

2.Varðar ósk um kaup á Sigtúni, Grundargötu 1.

Málsnúmer 201510140Vakta málsnúmer

Á 757. fundi byggðaráðs þann 5. nóvember 2011 var meðal annars eftirfarandi bókað:

"Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að ræða við Kristínu A. Símonardóttir um ofangreint erindi með tilliti til gildandi leigusamnings um Sigtún. Það er vilji byggðaráðs að auglýsa eignina til sölu og óskar eftir verðmati á Sigtúni."



a) Með fundarboði byggðaráðs fylgdu drög að samkomulagi um riftun leigusamnings, dagsett þann 21. desember 2015, sem Kristín Aðalheiður Símonardóttir hefur undirritað f.h. Gísla, Eiríks og Helga ehf.



b) Með fundarboði byggðaráðs fylgdi einnig tillaga að auglýsingu vegna sölu á Sigtúni, Grundargötu 1, sem og að fasteignasölunni Hvammi verði falið að auglýsa eignina til sölu.
a) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum drög að samkomulagi um riftun leigusamnings á milli Dalvíkurbyggðar og Gísla, Eiríks og Helga ehf. um húsnæðið við Grundargötu 1, eins og það liggur fyrir.

b) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum tillögu að auglýsingu eins og hún liggur fyrir en án allra kvaða, ásamt því að fela fasteignasölunni Hvammi að auglýsa eignina til sölu. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að tilboðsfrestur verði til og með 31. janúar 2016.

3.Frá KPMG; Úttekt og samanburður á tekjum og þjónustu sveitarfélaga.

Málsnúmer 201507012Vakta málsnúmer

Á 759. fundi byggðaráðs þann 20. nóvember 2015 var meðal annars eftirfarandi bókað:

"Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að farið verði í áfanga 1 í samræmi við það sem fram kemur í drögum að lýsingu frá KPMG. Áfanga 2 og frekari vinnu er vísað til gerðar starfs- og fjárhagsáætlunar 2016-2019. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að finna svigrúm innan fjárhagsáætlunar 2015 fyrir áfanga 1. Upplýst var á fundinum að fyrir liggja frumdrög frá KPMG. "



Með fundarboði byggðaráðs fylgdi eftirfarandi:

a) Skýrsla KPMG um greiningu og samanburð á tekjum og kostnaði sveitarfélaga, skil desember 2015, áfangi #1.

b) Tillaga frá KPMG um næstu skref hvað varðar áfanga #2.

Áfangi 2





Til umræðu ofangreint.
a) Rætt var um ferli kynningar á skýrslunni.

b) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum tillögu að áfanga #2 eins og hann liggur fyrir.

c) Byggðaráð felur sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að kynna næstu skref, áfanga #2, í framkvæmdastjórn.

4.Ráðning sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs

Málsnúmer 201601008Vakta málsnúmer

Undir þessum lið véku sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og formaður byggðaráðs af fundi vegna vanhæfis kl. 14:13. Varaformaður Kristján Guðmundsson tók við fundarstjórn.



Á 757. fundi byggðaráðs þann 10. nóvember 2011 var eftirfarandi bókað undir máli 201511012 Uppsögn á starfi sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs:

"Tekið fyrir erindi frá Hildi Ösp Gylfadóttur, sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar, rafpóstur dagsettur þann 19. október 2015, þar sem hún segir starfi sínu lausu.



Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að auglýsa starf sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs laust til umsóknar.

Byggðaráð þakkar Hildi Ösp fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins og óskar henni velfarnaðar."



Starfið var auglýst laust til umsóknar í gegnum Capacent. Umsóknarfrestur var til og með 7. desember eftir framlengingu og sóttu 17 aðilar um starfið.



Fyrir hönd Dalvíkurbyggðar sátu sveitarstjóri og formaður fræðsluráðs, Lilja Björk Ólafsdóttir, þau viðtöl sem tekin voru við þá umsækjendur sem ákveðið var að boða í viðtöl.



Sveitarstjóri leggur til við byggðaráð að Hlynur Sigursveinsson verði ráðinn í starf sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs.



Byggðaráð samþykkir samhljóða með 2 atkvæðum að leggja til við sveitarstjórn að Hlynur Sigurveinsson verði ráðinn í starf sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs.

5.Rent- A - Prent; drög að samningi við Nýherja

Málsnúmer 201509001Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og formaður byggðaráðs kom inn á fundinn að nýju kl. 14:31.



Á 760. fundi byggðaráðs þann 3. desember 2015 samþykkt sú tillaga að ganga til samninga við Nýherja um Rent-A -Prent prentlausn.



Með fundarboði byggðaráðs fylgdu drög að samningi við Nýherja um ofangreint.



Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum samningsdrögin eins og þau liggja fyrir með þeirri breytingu að sett verði inn uppsagnarákvæði eftir 3 ár.

6.Laun kjörinna fulltrúa og fundaþóknanir 2016

Málsnúmer 201601009Vakta málsnúmer

Við gerð starfs- og fjárhagsáætlunar 2016 voru laun kjörinna fulltrúa og fundaþóknanir fyrir árið 2016 ekki ákveðin þar sem ekki lágu fyrir forsendur kjarasamninga en laun kjörinna fulltrúa og fundaþóknanir hafa fylgt breytingum samkvæmt kjarasamningi KJALAR og Sambands íslenskra sveitarfélaga.



Með fundarboði byggðaráðs fylgdu útreikningar sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs á launum kjörinna fulltrúa og fundaþóknunum út frá nokkrum forsendum.
Byggðaráð samþykkir samhljóða 3 atkvæðum að leggja til eftirfarandi tillögu:

Laun kjörinna fulltrúa og fundaþóknanir hækki um 9,17% 1.1.2016 og svo um 5,5% þann 1.6.2016 skv.kjarasamningi KJALAR við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Laun kjörinna fulltrúa og fundaþóknanir verða tengdar við launaflokk 133, grunnlaun, skrifstofumaður IV.

7.Frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra; Tilnefning fulltrúa sveitarfélaganna í Legatsjóð Jón Sigurðssonar.

Málsnúmer 201512065Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra, rafbréf dagsett þann 16. desember 2015, þar sem óskað er eftir sjónarmiðum sveitarfélaganna við Eyjafjörð um hvernig rétt þyki að standa að tilnefningu fulltrúa þeirra í stjórn Legatsjóðs Jón Sigurðssonar. Sjóðurinn starfar á grundvelli skipulagskrár og er markmið og tilgangur sjóðsins að styðja bágstadda á Eyjafjarðarsvæðinu á grundvelli ávöxtunar eigna sjóðsins og fjármagnstekna.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu erindi til stjórnar Eyþings.

8.Frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga; Skipulagsbreyting hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Málsnúmer 201512076Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, bréf dagsett þann 17. desember 2015, þar sem fram kemur að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga í sinni núverandi mynd tók til starfa 1. janúar 19990 í kjölfar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Frá þeim tíma hefur sjóðurinn annast allar greiðslur framlaga til sveitarfélaga, bókun fylgiskjala og ársuppgjör.



Þann 1. janúar s.l. urðu þær breytingar á starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að framangreindir verkþættir, þ.e. greiðslur framlaga til sveitarfélaga, bókun fylgiskjala og uppgjör sjóðsins, munu alfarið flytjast til Fjársýslu ríkisins.



Lagt fram til kynningar.

9.Frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga; Uppgjör Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á rekstrargrundvelli

Málsnúmer 201512077Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, bréf dagsett þann 17. desember 2015, þar sem fram kemur að á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í lok september s.l. kom fram að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefði frá yfirfærslu grunnskólans verið gerður upp bæði á rekstrar- og greiðslugrunni. Á rekstrargrunni hafa verið gerð upp þau framlög sjóðsins er byggja á lögbundnum framlögum frá ríki. Á greiðslugrunni hafa hins vegar verið gerð upp þau framlög sjóðsins er byggja á hlutdeild sjóðsins á álagningarstofni útsvars, þ.e. framlög vegna yfirfærsku grunnskólans og framlög vegna þjónustu við fatlað fólk þegar þau koma til.



Fram kemur að ákveðið var að færa uppgjör þeirra framlaga sjóðsins er tengjst yfirfærslunum báðum á rekstrargrunn til samræmis við færslu sveitarfélaganna á tekjum af staðgreiðslunni. Þetta hefur í för með sér að uppgjör framlaga sjóðsins til sveitarfélaganna vegna ársins 2015 mun ekki liggja fyrir hjá sjóðnum fyrr enn um mánaðarmótin janúar/febrúar 2016.
Lagt fram til kynningar.

10.Frá nefndasviði Alþingis; Til umsagnar frumvarp til laga um almennar íbúðir (heildarlög), 435. mál.

Málsnúmer 201512081Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá nefndasviði Alþingis, dagsettur þann 21. desember 2015, þar sem fram kemur að velferðarnefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um almennar íbúðar, nr. 435. Óskað er umsagnar eigi síðar en 14. janúar n.k.
Lagt fram til kynningar.

11.Frá nefndasviði Alþingis; Frumvarp til laga um húsaleigulög (réttarstaða leigjenda og leigusala), 399. mál.

Málsnúmer 201512082Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá nefndasviði Alþingis, dagsettur þann 21. desember 2015, þar sem fram kemur að velferðarnefnd Alþingis óskar umsagnar um frumvarp til laga um húsaleigulög, 399. mál.



Óskað er umsagnar eigi síðar en 14. janúar n.k.
Lagt fram til kynningar.

12.Frá nefndasviði Alþingis; Til umsagnar frumvarp til laga um húsnæðisbætur (heildarlög), 407. mál.

Málsnúmer 201512083Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá nefndasviði Alþingis, dagsettur þann 21. desember 2015, þar sem velferðarnefnd Alþingis óskar umsagnar um frumvarp til laga um húsnæðisbætur, 407. mál.



Óskað er umsagnar eigi síðar en 14. janúar 2016.
Lagt fram til kynningar.

13.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Framlenging ákvæðis um B-gatnagerðargjald

Málsnúmer 201512091Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsettur þann 23. desember 2015, þar sem athygli sveitarfélaga er vakin á því að Alþingi hefur samþykkt frumvarp innanríkisráðherra um framlengingu B-gatnagerðargjalds.



Þessi lagabreyting skiptir eingöngu máli fyrir þau sveitarfélög sem ekki hafa enn lokið framkvæmdum við lagningu bundins slitlags á eldri götur.
Lagt fram til kynningar.

14.Frá Eyþingi; Fundargerð stjórnar Eyþings frá 8.12.2015

Málsnúmer 201503206Vakta málsnúmer

Með rafpósti frá Eyþingi dagsettum þann 21. desember 2015 fylgir fundargerð stjórnar Eyþings frá 8. desember s.l.
Lagt fram til kynningar.

15.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; fundargerðir stjórnar nr. 833 og nr. 834

Málsnúmer 201502032Vakta málsnúmer

Með rafpósti frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 16. desember 2015 fylgja með fundargerðir stjórnar Sambandsins nr. 833 og nr. 834.



Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:52.

Nefndarmenn
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Formaður
  • Kristján Guðmundsson Varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Bjarni Theódór Bjarnason Sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sviðstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs