Á 111. fundi veitu- og hafnaráðs þann 14. janúar 2022 var eftirfarandi bókað:
"Umsókn um að Dalvíkurhöfn verði tollhöfn er í lokaferli. Til að athafnasvæði tollsins fái samþykkt þarf svæðið að vera afgirt. Fyrir ráðinu liggja tvær tillögur að girðingastæðum og fer það eftir því hvaða hús verða tollgeymslur hvernig þarf að girða svæðið af.
Veitu- og hafnaráð vísar lokunum á umferðaæðum á hafnarsvæðinu til umsagnar í umhverfisráði og í kynningu meðal notenda hafnarinnar, bæði hvað varðar tillögu a og tillögu b eða aðra útfærslu, eftir því hvað verður ofan á, með staðsetningu á tollgeymslu."
Með fundarboði fylgdu uppdrættir að tveimur lokunartillögum á hafnarsvæðinu. Um tímabundnar lokanir yrði að ræða, allt að tvisvar í mánuði í u.þ.b. sex klst í hvert skipti. Bjarni Daníelsson sviðsstjóri framkvæmdasviðs kynnti málið og stöðu þess fyrir ráðinu. Ekki hefur ennþá verið tekin ákvörðun hjá málsaðilum um staðsetningu tollgeymslunnar.