Byggðaráð

784. fundur 04. ágúst 2016 kl. 13:00 - 15:48 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Formaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
  • Heiða Hilmarsdóttir Varamaður
Starfsmenn
  • Bjarni Theódór Bjarnason Sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sviðstjóri
Fundargerð ritaði: Bjarni Th. Bjarnason og Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sveitarstjóri / sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá
Kristján Guðmundsson, varaformaður, boðaði forföll. Heiða Hilmarsdóttir, varamaðu hans, sat fundinn í hans stað.

1.Málefni Húsabakka; söluferli.

Málsnúmer 201503150Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Sigurður Sveinn Sigurðsson, fasteignasali hjá fasteignasölunni Hvammi á Akureyri, kl. 13:00 í gegnum símafund.



Dalvíkurbyggð auglýsti til sölu eignina Húsabakka í Svarfaðardal hjá Fasteignasölunni Hvammi. Tilboðsfrestur var til kl. 16:00 þann 29. júlí 2016.

Um er að ræða tvær byggingar sem áður voru notaðar undir rekstur Húsabakkaskóla, sem var grunnskóli Svarfaðardalshrepps fram til ársins 2004. Húsabakki er í fallegu umhverfi rétt við Friðland Svarfdæla skammt sunnan Dalvíkur.

Á staðnum eru tvö hús. Annað húsið er byggt árið 1953 og er skráð 675,8 m2 að stærð og hitt húsið er byggt 1966 og er skráð 556,4m2 að stærð. Húsin henta vel til ýmisskonar reksturs og eru nýtt í ferðaþjónustu að stærstum hluta í dag en í húsunum eru herbergi af ýmsum stærðum, íbúðir fyrir staðarhalda, eldhús, matsalur, fundarsalir og gott útisvæði.

Við Húsabakka er einnig tjaldsvæði, félagsheimilið Rimar og sundskáli sem möguleiki er að semja um leigu á samhliða kaupum á Húsabakka.



Þrjú tilboð bárust í eignina.



Til umræðu ofangreint.



Sigurður vék af fundi kl. 13:15.



Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að framlengja tilboðsfrestinn um einn mánuð og felur fasteignasölunni Hvammi að sjá áfram um söluferlið.

2.Endurskoðun á samningi Tónskóla Fjallabyggðar og Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar

Málsnúmer 201510136Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Hlynur Sigursveinsson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs kl. 13:20.



Á 759. fundi byggðaráðs þann 19. nóvember 2015 var eftirfarandi bókað:

"Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Magnús Guðmundur Ólafsson, skólastjóri Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar, kl. 14:10. Á 198. fundi fræðsluráðs þann 11. nóvember 2015 var eftirfarandi bókað: 'Magnús G. Ólafsson, skólastjóri Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar, kynnti gögn þau sem fylgdu fundarboði og varða samstarf Tónskóla Fjallabyggðar og Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar. Magnús hefur kynnt hugmyndir sínar varðandi framtíð skólanna fyrir stjórnendum í Fjallabyggð. Fræðsluráð tekur jákvætt í hugmyndir Magnúsar og felur honum að setja niður á blað faglegan og fjárhagslegan ávinning af þeim. Fræðsluráð leggur til að Magnús kynni hugmyndirnar fyrir yfirstjórn Dalvíkurbyggðar.' Til umræðu ofangreint. Magnús vék af fundi kl. 14:45.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að leggja til að unnið verði að sameiningu Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar og Tónskóla Fjallabyggðar með því markmiði að sameining taki gildi í upphafi skólaárs haustið 2016. Byggðaráð felur sveitarstjóra að senda erindi samkvæmt ofangreindri bókun til bæjarráðs Fjallabyggðar. '



Á 776. fundi byggðaráðs þann 12. maí 2016 var eftirfarandi bókað:

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Hlynur Sigursveinsson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, kl. 13:00. Með fundarboði byggðaráðs fylgdi úttekt um hugsanlega sameiningu Tónskóla Fjallabyggðar og Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar, dagsett þann 2. maí 2016, unnin af sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar og deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála Fjallabyggðar. Til umræðu ofangreint.

Fram kom að úttektin og ofangreint verður til umfjöllunar á fundi fræðsluráðs á morgun, föstudaginn 13. maí n.k. Hlynur vék af fundi kl. 13:41. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu til umfjöllunar í fræðsluráði og leggur til við sveitarstjórn að heimila sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs að vinna áfram að málinu á grundvelli þeirra úttektar sem liggur fyrir.



Á 205. fundi Fræðsluráðs þann 13. maí 2016 var eftirfarandi bókað:

"Fræðsluráð lýsir ánægju sinni með vinnuna sem liggur að baki skýrslunni og styður áframhaldandi vinnu að sameiningu skólanna. Von fræðsluráðs er að sú hagræðing sem fæst við sameininguna komi fram í minni kostnaði sveitarfélagsins og þeirra sem nýta þjónustuna."



Fyrir 784. fundi byggðaráðs liggja samningsdrög á milli Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar um stofnun nýs tónskóla; "Samningur vegna sameiningar Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar og Tónskóla Fjallabyggðar undir nafninu Tónlistarskólinn á Tröllaskaga". Gert er ráð fyrir að skólinn mun hefja starfsemi sína í upphafi skólaárs haustið 2016.



Til umræðu ofangreint.



Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs að vinna áfram að samningsdrögunum í samræmi við umræður á fundinum.

3.Ósk um tilfærslu fjárhagsramma Dalvíkurskóla 2016.

Málsnúmer 201608005Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Gísli Bjarnason, skólastjóri Dalvíkurskóla, og Valur Hilmarsson, umhverfisstjóri, kl. 13:47.



Tekið fyrir erindi frá Gísla Bjarnasyni, skólastjóra Dalvíkurskóla, dagsett þann 21. júlí 2016 þar sem óskað er eftir tilfærslu í fjárhagsramma 2016. Í fjárhagsramma Dalvíkurskóla var heimild fyrir því að kaupa nýtt leiktæki á skólalóð og var gert ráð fyrir að kostnaður við það væri 2.200.000 kr. og einnig var gert ráð fyrir að setja gúmmíhellur undir leiktæki á skólalóð og átti það að kosta 500.000 kr. Að ígrunduðu máli þá telja stjórnendur að fjármunum væri betur varið í að gera einhverja aðstöðu úti sem mundi nýtast frekar eldri nemendum skólans. Hugmyndin er að gera útikennslustofu sem mundi nýtast eldri nemendum í frímínútum og einnig öllum bekkjum skólans. Hún yrði staðsett sunnanmegin við skólann og norðanmegin á tjaldsvæðinu. Umhverfisstjóri telur að ekki væri mikill kostnaður í kringum þetta og þetta mundi líka nýtast tjaldsvæði Dalvíkurbyggðar. Einnig mælist skólastjóri til að hafa fjármagn til að geta klárað að þökuleggja við bílastæði austanmegin við skólann og svo að laga vissa grasbletti á skólalóð.



Til umræðu ofangreint.



Hlynur, Gísli og Valur viku af fundi kl. 14:12.
Afgreiðslu frestað.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela skólastjóra Dalvíkurskóla að koma með nýtt og uppfært erindi með nákvæmari útfærslu á framkvæmdum og kostnaðaráætlun.

4.Málefni er varðar sölu og leigu á Félagslegum íbúðum: vinnuhópur

Málsnúmer 201504045Vakta málsnúmer

Dalvíkurbyggð óskaði eftir tilboði í hús til flutnings en húsið er staðsett að Hólavegi 1 á Dalvík. Eignin er 66fm að stærð og er laust til afhendingar eftir 1. september. Húsið er í dag sambyggt öðru húsi en seljandi mun sjá um að aðskilja þau áður en til afhendingar kemur.

Óskað var eftir tilboðum í eignina og var tilboðsfrestur til kl. 16:00 miðvikudaginn 20. júlí 2016.

Dalvíkurbyggð áskildi sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum



Þrjú tilboð bárust í færanlega húsið að Hólavegi 1. Fasteignasalan Hvammur hafði umsjón með sölunni. Ákveðið var að taka tilboði Álfurinn Bæ ehf., kt.:500797-3049 að upphæð 4.810.000,- með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að gengið verði að tilboði frá Álfurinn Bæ ehf að upphæð kr. 4.810.000, sbr. ofangreint.

5.Málefni Menntaskólans á Tröllaskaga (MTR)

Málsnúmer 201607033Vakta málsnúmer

a) Tekið fyrir erindi frá Fjallabyggð, dagsett þann 11. júlí 2016, þar sveitarstjóri Gunnar I. Birgisson, gerir grein fyrir fyrirhuguðum byggingaframkvæmdum við MTR. Hlutdeild Dalvíkurbyggðar í þeim framkvæmdum væri árið 2017 kr. 1.650.000.



b) Í sama erindi kemur fram að láðst hafi að gera leigusamning við sveitarfélögin vegna greiðslu á hlutdeild í leigu húsnæðis MTR.



Dalvíkurbyggð hefur stutt við Menntaskólann á Tröllaskaga frá stofnun hans með greiðslu á hlutdeild í leigu húsnæðisins. Fyrir fundinum liggur leigusamningur sem formgerir þennan stuðning sem tekur gildi 1.1.2016 og gildir í 5 ár eða til ársloka 2020. Samningurinn er óuppsegjanlegur nema ef aðilar sammælast um annað. Hlutdeild Dalvíkurbyggðar í leigu árið 2016 er kr. 275.058. Leigafjárhæð hækkar skv. NVT 1. janúar ár hvert.





Til umræða ofangreint.
a) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum hlutdeild Dalvíkurbyggðar í byggingaframkvæmdum við MTR, kr. 1.650.000, með fyrirvara um að öll sveitarfélögin taki þátt. Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar 2017.

b) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreindan samning um hlutdeild Dalvíkurbyggðar í leigu til 5 ára með fyrirvara um að öll sveitarfélögin taki þátt.

6.Framkvæmd nýrra laga um almennar íbúðir

Málsnúmer 201607075Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Íbúðalánasjóði, dagsett þann 13. júlí 2016, um framkvæmd nýrra laga um almennar íbúðir auk erindis dagsett þann 15. júlí 2016 frá Benedikt Sigurðarsyni f.h. Búseta á Norðurlandi er varðar mögulegt samstarf sveitarfélaga og Búseta á Norðurlandi um byggingu leiguíbúða samkvæmt lögum um "almennar íbúðir" þskj.1437.



Í erindi Búseta er áréttaður vilji til að eiga alvarlegar viðræður við fulltrúa sveitarfélaga á NA-landi með það fyrir augum að byggja nokkurn fjölda íbúða fyrir lágtekjufólk undir lagaramma um svokallaðar "almennar íbúðir."



Til umræðu ofangreint.
Lagt fram til kynningar.

7.Beiðni um umsögn vegna umsóknar um breytingu á tækifærisleyfi vegna Fiskidagsins mikla.

Málsnúmer 201607029Vakta málsnúmer

Guðmundur St. Jónsson vék af fundi undir þessum lið vegna vanhæfis kl. 15:54.



Tekið fyrir hjálagt erindi dags 12.júli 2016 frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra til umsagnar samkvæmt 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, umsókn Júlíusar Júlíussonar kt.020266-4819 Skógarhólum 13 Dalvík f.h. Fiskidagsins mikla kt.530605-1670 Hafnartogi Dalvík um tækifærisleyfi dagana 5.-7.ágúst 2016.























Byggðaráð gerir ekki athugasemdir við ofangreinda umsókn.

8.Erindi frá Dalvik Loger

Málsnúmer 201607036Vakta málsnúmer

Guðmundur St. Jónsson kom inn á fundinn að nýju kl. 14:57.



Tekið fyrir erindi frá frönskum aðila, dagett þann 13. júlí 2016, sem kallar sig Dalvik Loger. Hann rekur fyrirtæki sem heitir "Dalvik Photography" og hefur hug á samstarfi við sveitarfélagið og flutningi til Dalvíkur. Hann óskar jafnframt eftir fjárhagslegum stuðningi við sína vinnu auk húsnæðis og bíls.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að sveitarfélagið getur ekki orðið við erindinu.

9.Trúnaðarmál

10.Trúnaðarmál

11.Trúnaðarmál

12.Fjárhagsáætlun 2016; viðauki vegna launahækkana skv. nýjum kjarasamningum

Málsnúmer 201607018Vakta málsnúmer

Á 783. fundi byggaðráðs þann 15. júlí s.l. var eftirfarandi bókað:



"Viðauki vegna launahækkana skv. nýjum kjarasamningum lagður fram til staðfestingar.

Samþykkt samhljóða með tveimur atkvæðum."



Í bókun láðist að tilgreina fjárhæð viðukans og hvernig sveitarstjórn ætlar að fjármagna viðaukann.



Tekið fyrir minnisblað frá sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs, dagsett þann 7. júlí 2016, þar sem fram kemur meðal annars yfirferð launafulltrúa Dalvíkurbyggðar yfir launaskapalón 2016, í samráði við stjórnendur sveitarfélagsins, er lokið miðað við þær forsendur og kjarasamninga sem nú liggja fyrir.



Eins og kunnugt er við gerð starfs- og fjárhagsáætlunar 2016-2019 þá lágu nýir kjarasamningar ekki fyrir og því var gert ráð fyrir almennu launaskriði sem nemur 8,1% við gerð launaáætlana nema í áætlunum fyrir grunnskólana, þar var gert ráð fyrir 2,0%.



Launaskriðið sem áætlað var fyrir vegna ársins 2016 var kr. 55.080.000, sbr. liður 1023 í áætlun og meðfylgjandi tafla (Fylgiskjal I).



Samkvæmt meðfylgjandi samantekt (Fylgiskjal II) sem byggir á niðurstöðum á endurskoðun launaskapalóna þá vantar kr. 36.405.985 vegna launahækkana, þar af kr. 5.445.000 vegna afturávirka leiðréttinga vegna árins 2015.





Byggðaráð hefur áður samþykkt viðauka við fjárhagsáætlun til að bregðast við nýjum kjarasamingum og/eða starfsmati. Ekki er hægt að sjá sóknarfæri sé að sinni í öðru fyrir þessari upphæð en að lækka handbært fé á móti.





Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum skiptingu viðauka niður á deildir í fjárhagsáætlun 2016 skv. fylgiskjali II og að viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé sem og lækkun á áætlaðri rekstarniðurstöðu samstæðu um kr. 36.405.985. Rekstrarniðurstaða skv. heildarviðauka I var áætluð kr. 95.025.000 en lækkar þá um kr. 36.046.000 og er áætluð kr. 58.979.000.







Fundi slitið - kl. 15:48.

Nefndarmenn
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Formaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
  • Heiða Hilmarsdóttir Varamaður
Starfsmenn
  • Bjarni Theódór Bjarnason Sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sviðstjóri
Fundargerð ritaði: Bjarni Th. Bjarnason og Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sveitarstjóri / sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs