Byggðaráð

738. fundur 18. júní 2015 kl. 13:00 - 16:05 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Formaður
  • Kristján Guðmundsson Varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Bjarni Theódór Bjarnason Sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sviðstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Ávöxtun á innistæðum Dalvíkurbyggðar

Málsnúmer 201501057Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs vék af fundi undir þessum lið vegna vanhæfis, kl. 13:05.



Á 736. fundi byggðaráðs þann 28. maí 2015 var eftirfarandi bókað:

"Heiða Hilmarsdóttir vék af fundi undir þessum lið til annarra starfa kl. 14:56. Undir þessum lið vék sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs af fundi vegna vanhæfis kl. 15:00. Á 723. fundi byggðaráðs þann 15. janúar 2015 var til umfjöllunar ávöxtun á innistæðum Dalvíkurbyggðar og á þeim fundi var sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs falið að kanna hvað Dalvíkurbyggð stendur til boða hjá fjármálafyrirtækjum hvað varðar ávöxtun á innistæðum Dalvíkurbyggðar. Leitað var eftir tillögum frá 7 fjármálafyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu með bréfi dagsettu þann 11. maí 2015 þar sem óskað var eftir tillögum í síðasta lagi 27. maí s.l. kl. 15:00. Svör bárust frá 6 aðilum og liggur fyrir samanburðarskrá á grundvelli þeirra svara sem bárust. Til umræðu ofangreint.

Lagt fram til kynningar. Sveitarstjóra falið að afla nánari upplýsinga á milli funda. "



VII. kafli Sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fjallar um fjármál sveitarfélaga. Er í 65. gr. laganna kveðið á um ábyrgða meðferð sveitarfélaga á fjármunum. Ákvæðið er svohljóðandi:

"65. gr. Ábyrg meðferð fjármuna.

Sveitarstjórn skal gæta ábyrgðar við meðferð fjármuna sveitarfélagsins og varðveita fjármuni með ábyrgum hætti, svo sem á innlánsreikningum fjármálastofnana eða með því að kaupa ríkistryggð verðbréf. Sveitarfélögum er óheimilt að fjárfesta í hagnaðarskyni nema um sé að ræða verkefni sem þeim hefur með lögum verið falið eða heimilað að sinna. Þó er sveitarfélögum heimilt að taka þátt í verkefnum í ljósi brýnna samfélagslegra hagsmuna en þó þannig að áhætta vegna þátttöku í þeim gangi ekki gegn ábyrgri meðferð fjármuna."





Fyrir liggur einnig að samkvæmt lögum nr. 55 frá 31. maí 2011, um breytingu á lögum nr. 98/1999, um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum, njóta innistæður sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila ekki verndar samkvæmt lögunum.



Sveitarstjóri gerði grein fyrir þeim upplýsingum sem hann hefur aflað á milli funda og áliti lögmanna, meðal annars:

a) Heimilt er samkvæmt áliti lögfræðings sveitarfélögum að ávaxta fé sitt í innistæðumsjóðum.

b) Fram kom í áliti lögfræðings að ljóst er að gerðar eru tiltölulega strangar kröfur til sveitarstjórna að takmarka tapshættu sveitarfélaga vegna ávöxtunar og varðveislu fjármuna. Ber því sveitarstjórnum ekki eingöngu að horfa til ávöxtunar við ákvörðun um varðveislu fjármuna heldur einnig til fjárhagsstöðu gagnaðila og áhættudreifingar. Er þetta sérstaklega mikilvægt þar sem ljóst er að við greiðslufall fjármálafyrirtækis geta sveitarfélög ekki leitað til Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta til endurgreiðslu innistæðna.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að fylgjast áfram með þróun mála hjá Sparisjóði Norðurlands.

2.Trúnaðarmál

Málsnúmer 201405189Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kom inn á fundinn að nýju undir þessum lið kl. 13:19.



Bókað í trúnaðarmálabók.

3.Frá umhverfisstjóra; Aðgerðaáætlun varðandi heftingu á útbreiðslu á kerfli, lúpínu og njóla.

Málsnúmer 201403037Vakta málsnúmer

Á 693. fundi byggðaráðs þann 20. mars 2014 samþykkti byggðaráð að fela umhverfisstjóra að leggja fyrir aðgerðaráætlun hvað varðar heftingu á útbreiðslu á lúpínu, kerfils og njóla.



Með fundarboði byggðaráðs fylgdi aðgerðaáætlun umhverfisstjóra en reiknað er með að verkefnið taki um fimm ár. Þá verði sveitarfélagið kortlagt að nýju og gerð aðgerðaráætlun í kjölfarið. Fram kemur að landeigendum verður kynnt þessi aðgerðaráætlun bæði á fundum og með bréfpósti þar sem farið varður fram á samstarf þeirra í þessu átaksverkefni.
Byggðaráð samþykkir með 3 atkvæðum að óska eftir kostnaðaráætlun og að skýrt liggi fyrir hver aðkoma Dalvíkurbyggðar á að vera.

Byggðaráð óskar eftir að umhverfisstjóri komi á fund byggðaráðs í aðdraganda vinnu við starfs- og fjárhagsáætlun 2016-2019.

4.Frá 69. fundi íþrótta- og æskulýðsráðs þann 2. júní 2015; Beiðni um viðauka vegna Skíðafélags Dalvíkur.

Málsnúmer 201501151Vakta málsnúmer

Á 69. fundi íþrótta- og æskulýðsráðs þann 2. júní 2015 var eftirfarandi bókað:

"Lögð voru fram drög að samningum við íþróttafélögin. Farið var yfir skiptingu á fjármagni miðað við skiptareglu sem tekur mið af iðkendafjölda og æfingartímabili félaganna. Samþykkt að notast við skiptaregluna, en gera ráð fyrir sérstökum greiðslum vegna umsjónar og reksturs íþróttasvæða og annarra verkefna sem ekki geta komið til í slíkri reglu. Jafnframt verður hluti samningsfjárhæðar nokkurskonar pottur, sem skiptist á milli þeirra félaga sem standa við þær kröfur sem samningur setur á félögin. Samhliða þessu var lagt fram erindi Skíðafélags Dalvíkur um viðhaldsþörf á skíðasvæðinu næstu árin. Í erindinu kemur m.a. fram að afar mikilvægt er að farið verði í að skipta um belti á snjótroðara og legu í kæliviftu strax í sumar, svo hann verði nothæfur í vetur þegar skíðavertíðin hefst. Áætlaður kostnaður við það er kr. 2.012.300. Í samningi á milli Dalvíkurbyggðar og Skíðafélagsins fyrir árin 2013-2015 er gert ráð fyrir kr. 2.000.000 í viðhald á árinu 2015 en sá liður var stjörnumerktur og var sett inn með fyrirvara um aukafjárveitingu en kom ekki til greiðslu. Íþrótta- og æskulýðsráð samþykkir með 4 atkvæðum að óska eftir við byggðaráð að staðið verði við þá viðbótarfjárveitingu í viðhald, sem áætluð var í samningnum, að upphæð kr. 2.000.000. Jafnframt var frekari óskum um viðhald vísað til samningagerðar við félagið. Íris Hauksdóttir greiðir atkvæði gegn beiðninni. "



Til umfjöllunar ofangreint.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að verða við beiðni um viðauka að upphæð allt að kr. 2.000.0000 vegna styrks til Skíðafélags Dalvíkur vegna viðhalds troðara, vísað til gerðar viðauka við fjárhagsáætlun 2015, deild 06-80, og til lækkunar á handbæru fé.

Byggðaráð beinir því til íþrótta- og æskulýðsráðs að samningar við félög innihaldi framvegis engar stjörnumerkingar um vænta viðauka.

5.Vátryggingar sveitarfélagsins

Málsnúmer 201501058Vakta málsnúmer

Undir þessum vék Kristján Guðmundsson af fundi kl. 15:04 vegna vanhæfis.



Á 726. fundi byggðaráðs þann 13. febrúar 2015 var eftifarandi bókað:

"9.
201501058 - Vátryggingar sveitarfélagsins.


Á 724. fundi byggðarráðs þann 22. janúar 2015 var eftirfarandi bókað:

"Á 723 fundi byggðarráðs þann 15. janúar s.l. var eftirfarandi bókað um ofangreint:

Til umræðu vátryggingar sveitarfélagsins og hugsanlegt útboð á árinu. Í gildi er samkomulag við Vátryggingarfélag Íslands, í kjölfars útboðs 2010, en samkvæmt 7. gr. samningsins er samningurinn frá 1. janúar 2011 til 4 ára. Eftir það tímabil framlengist samningurinn um eitt ár í senn, þó mest tvö ár, nema honum verði sagt upp skriflega með sex mánaðar fyrirvara miðað við 1. janúar.

Frekari umfjöllun og afgreiðslu frestað til næsta fundar."



Til umræðu ofangreint.



Byggðarráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu til umfjöllunar og skoðunar í framkvæmdastjórn.



Upplýst var á fundinum að fjallað hefur verið um ofangreint á tveimur fundum í framkvæmdastjórn og er niðurstaðan að leggja til framlengja samkomulagið við VÍS um eitt ár sem er í samræmi við 7. gr. samningsins.


Afgreiðslu frestað. Byggðarráð felur sveitarstjóra að afla nánari upplýsinga í samræmi við umræður á fundinum."



Sveitarstjóri gerði grein fyrir að fulltrúar frá VÍS hafið komið á fund framkvæmdastjórnar þann 1. júní s.l. til að ræða tryggingarmál sveitarfélagsins.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 2 atkvæðum að samningur við VÍS verði framlengdur í samræmi við ákvæði samningsins og hugað verði að útboði á næsta ári.

6.Aðkeypt þjónusta lögmanna

Málsnúmer 201409059Vakta málsnúmer

Kristján Guðmundsson kom inn á fundinn undir þessum lið kl. 15:13.



Á 707. fundi byggðaráðs þann 11. september 2014 var eftirfarandi bókað í tengslum við erindi frá Sókn lögmannastofu en í erindi þeirra frá 2. september 2014 er óskað eftir því að Sókn lögmannsstofa fái að gera sveitarfélaginu tilboð. Sambærileg erindi hafa borist frá

Pétri Einarssyni (201406099), LEX (201406107), Lögmál ehf. (201407036), PACTA (201408018).



"Lagt fram til kynningar.



Málefni mögulegra samstarfsaðila um lögfræðiþjónustu fyrir Dalvíkurbyggð er enn til skoðunar hjá sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs."

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að óska eftir verðum í lögmannaþjónustu frá PACTA.

7.Skýrsla vinnuhóps frá árinu 2014 "Er kynbundinn launamunur í Dalvíkurbyggð ?"

Málsnúmer 201401137Vakta málsnúmer

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson vék af fundi undir þessum lið kl. 15:35 vegna vanhæfis og varaformaður tók við fundarstjórn.



Á 693. fundi byggðaráðs þann 20. mars 2014 var eftirfarandi bókað:

"201401137 - Frá launafulltrúa, sviðsstjórum félagsmálasviðs, fræðslu- og menningarsviðs og fjármála- og stjórnsýslusviðs; Er kynbundinn launamunur í Dalvíkurbyggð ?

Undir þessum lið komu á fund byggðarráðs Jón Steingrímur Sæmundsson, launafulltrúi, Eyrún Rafnsdóttir, sviðsstjóri félagsmálasviðs og Hildur Ösp Gylfadóttir, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, kl. 8:15.



Kristinn Ingi Valsson kom á fundinn undir þessum lið kl. 8:38.



Launafulltrúi ásamt sviðsstjórum félagsmálasviðs, fræðslu- og menningarsviðs og fjármála- og stjórnsýslusviðs unnu að úrvinnslu og samantekt fyrir byggðarráð.



Í aðgerðaáætlun með Mannréttindastefnu Dalvíkurbyggðar er kveðið á um að byggðarráð, í samvinnu við launafulltrúa, skuli gera úrtakskönnun á launum starfsmanna í sambærilegum störfum til að greina hvort um kynbundinn launamun sé að ræða.



Launafulltrúi gerði grein fyrir niðurstöðum úr könnuninni. Megin niðurstaðan er að ekki er um kynbundinn launamun að ræða hjá Dalvíkurbyggð. Fram komu nokkrar ábendingar um atriði sem vert er að skoða nánar ef markmiðið er að sækja um Jafnlaunavottun.



Jón, Eyrún og Hildur Ösp viku af fundi kl.09:00.

Byggðarráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela vinnuhópnum að taka saman hvað þarf að vinna og setja í ferli með því markmiði að sækja um Jafnlaunavottun."



Til umræðu ofangreindar niðurstöður úr könnun 2014.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 2 atkvæðum að fá ráðgjöf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi þau mál sem standa út af.

8.Frá stjórnsýslunefnd; vinnuhópur vegna fasteigna Eignasjóðs

Málsnúmer 201505108Vakta málsnúmer

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson kom inn á fundinn að nýju kl. 15:53.



Á fundi stjórnsýslunefndar þann 13. maí 2015 kom fram sú tillaga, í tengslum við umræður um starfs- og fjárhagáætlun 2016-2019, að setja á laggirnar vinnuhóp sem hefði það verkefni með höndum að fara yfir húsnæði í eigu Dalvíkurbyggðar( annað en Félagslegar íbúðir), bæði sem Dalvíkurbyggð nýtir sjálft og/eða 3ji aðili í heild og/eða að hluta.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela vinnuhóp sem er með það verkefni að fara yfir Félagslegar íbúðir að taka aðrar fasteignir sveitarfélagsins jafnframt til umfjöllunar í þeirri vinnu.

Fundi slitið - kl. 16:05.

Nefndarmenn
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Formaður
  • Kristján Guðmundsson Varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Bjarni Theódór Bjarnason Sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sviðstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs