Byggðaráð

1099. fundur 07. mars 2024 kl. 13:15 - 17:19 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Helgi Einarsson formaður
  • Freyr Antonsson varaformaður
  • Lilja Guðnadóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
  • Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Frá SSNE; Árlegur fundur SSNE með bæjar- eða sveitarstjórnum

Málsnúmer 202402010Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Elva Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE, Albertína F. Elíasdóttir, framkvæmdastjóri SSNE, Friðjón Árni Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi, kl. 13:15.
Gunnar Kristinn Guðmundsson, sveitarstjórnarfulltrúi, boðaði forföll.

Á 1095. fundi byggðaráðs þann 8. febrúar sl. var eftirfarandi bókað:
"Tekið fyrir erindi frá SSNE, dagsett þann 31. janúar sl., þar sem SSNE óskar eftir fundi með sveitarstjórn um miðjan febrúar. SSNE átti slíka fundi í öllum sveitarfélögum á síðasta ári og þóttu þeir takast vel og SSNE vill því endurtaka leikinn. Fram kemur að fundirnir eru mikilvægir fyrir miðlun upplýsinga en efni fundanna er að kynna starfsemi SSNE, áherslur ársins og það sem helst snýr að hverju sveitarfélagi fyrir sig. Hægt að óska eftir umfjöllunarefni sem hægt er að undirbúa sérstaklega.Niðurstaða:Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að finna fundartíma sem fyrst í samráði við SSNE á fundardegi byggðaráðs sem er á fimmmtudögum."

Elva og Albertína kynntu starfsemi SSNE, áherslur ársins og það sem helst snýr að Dalvíkurbyggð.

Elva, Albertína og Friðjón viku af fundi kl. 14:02.
Byggðaráð þakkar SSNE fyrir komuna og kynninguna.
Lagt fram til kynningar.

2.Frá Leikfélagi Dalvíkur; Ungó - salernismál

Málsnúmer 202403016Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Helga Íris Ingólfsdóttir, deildarstjóri Eigna- og framkvæmdadeildar, og Haukur Guðjónsson, verkstjóri Eigna- og framkvæmdadeildar kl. 14:04.

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi erindi frá Leikfélagi Dalvíkur, dagsett þann 4. mars 2024, þar sem fram kemur að félagið hefur verið að lenda í stíflum og vandræðum með salernin niðri í kjallara í búningsaðstöðu. Fram kemur að Leikfélagið er með hugmyndir varðandi að setja upp salerni og þá með aðgengi fyrir fatlaða.

Helga Íris og Haukur gerðu grein fyrir að þetta er viðhaldsmál sem er í ferli hjá Eigna- og framkvæmdadeild. Lögnin sem er frá þessu salerni liggur undir húsinu þannig að hugmyndir eru uppi að færa það á efri hæðina og leggja nýja lögn þaðan út úr húsi.
Á viðhalds- og fjárhagsáætlun 2024 þá eru kr. 300.000 á áætlun vegna Ungó sem er eyrnamerkt í ýmislegt viðhald. Nú þegar er búið að verja hluta af þessum peningum í neyðarlýsingu og annað. Unnið er að meta kostnaðinn við tilfærsluna en ljóst að ekki er gert ráð fyrir kostnaði sem þessum við tilfærslu á salerni í áætlunum 2024. Annað hvort er að sækja um viðauka fyrir verkinu eða setja það á dagskrá 2025. Þegar leiksýningar eru ekki í gangi þá er þetta salerni nánast ekkert notað. Ef salernið færi á efri hæðina þá væri hægt að gera það með aðgengi fyrir fatlaða.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela deildarstjóra og verkstjóra Eigna - og framkvæmdadeildar að vinna áfram að málinu í samræmi við ofangreind áform.

3.Fasteignir sveitarfélagsins. Ferlar, viðhaldsáætlun o.fl.

Málsnúmer 202403048Vakta málsnúmer

Til umræðu fasteignir sveitarfélagsins, viðhaldsáætlanir og ferlar.

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi eftirfarandi:

Vinnureglur innanhúss um Félagslegar íbúðir.
Reglur um Eignasjóð og Félagslegar íbúðir.
Gátlisti Eigna- og framkvæmdadeildar vegna fasteigna.
Almennar reglur um leigu ásamt fylgiskjali.

Til umræðu ofangreint.

Haukur vék af fundi kl.14:45.
Lagt fram til kynningar.

4.Frá deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar; Vinnuskóli Dalvíkurbyggðar - staða og framtíð

Málsnúmer 202401136Vakta málsnúmer

Á 1097. fundi byggðaráðs þann 22. febrúar sl. var eftirfarandi bókað:
"Á 17. fundi umhverfis- og dreifbýlisráðs þann 2. febrúar sl. var eftirfarandi bókað: "Helga fór yfir skipulag og stöðu Vinnuskólans og helstu áskornir í starfi hans. Niðurstaða:Umhverfis- og dreifbýlisráð felur Framkvæmdasviði í samvinnu við Fræðslusvið að finna lausn á húsnæðisvanda Vinnuskólans. Ráðið telur nauðsynlegt að ráðinn sé inn verkstjóri fyrir Vinnuskólann. Samþykkt samhljóða með fimm atkvæðum." Með fundarboði byggðaráðs fylgdi minnisblað deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar dagsett þann 30. janúar sl. sem tekið var jafnframt fyrir í umhverfis- og dreifbýlisráði. Til umræðu ofangreint. Helga Íris vék af fundi kl. 14:48.Niðurstaða:a) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela deildarstjóra að koma með upplýsingar um kostnað og útfærslu á starfi verkstjóra Vinnuskóla og að horft verði í leiðinni almennt á mönnun í sumar á Eigna- og framkvæmdadeild, fyrir næsta fund. b) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela deildarstjóra að koma með tillögu að húsnæðismálum Vinnuskóla í samráði við stjórnendur sveitarfélagsins eftir því sem við á, fyrir næsta fund."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi útreikningar mannauðs- og launafulltrúa varðandi kostnað við starf verkstjóra vinnuskóla. Áætlaður kostnaður án persónuálags er kr. 2.807.602 miðað við 4 mánuði.
Með fundarboði byggðaráðs fylgdu upplýsingar um leigu á húseiningum til leigu, kostnaður á mánuði er um kr. 167.000 með vsk.

Á fundinum kom einnig fram að deildarstjóri er í samskiptum við skólastjóra Dalvíkurskóla um mögulega aðstöðu fyrir Vinnuskólann þar í sumar.
a) Byggðaráð leggur áherslu á að Vinnuskólanum verði fundinn aðstaða innan veggja stofnana sveitarfélagsins.
b) Byggðaráð felur deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar að kanna hvort hægt sé að samtvinna starf vegna verkstjórn á Vinnuskólanum með öðrum tímabundnum störfum á Eigna- og framkvæmdadeild.

5.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202403015Vakta málsnúmer

Bókað í trúnaðarmálabók.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum beiðni um viðauka vegna veikinda, launaviðauki að upphæð kr. 3.640.265 við fjárhagsáætlun 2023, viðauki nr. 12, og að honum verði mætt með lækkun á handbæru fé.Vísað til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar.

6.Framkvæmdir 2024; eftir opinn fund með verktökum

Málsnúmer 202401135Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs María Markúsdóttir, skipulagsfulltrúi, kl. 15:03. Halla Dögg Káradóttir, veitustjóri, hafði ekki tök á að mæta vegna annarra verkefna.


Á 1097. fundi byggðaráðs þann 22. febrúar sl. var eftirfarandi bókað:
"Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Helga Íris Ingólfsdóttir, deildarstjóri Eigna- og framkvæmdadeildar, Halla Dögg Káradóttir, veitustjóri, og María Markúsdóttir, skipulagsfulltrúi, kl. 13:15. Til umræðu fjárfestingar,framkvæmdir og viðhald sveitarfélagsins 2024 skv. fjárhagsáætlun, m.a.: Hver staðan mála / verkefna er almennt. Hvað verður sett í útboð og verðkannanir. Fundur með verktökum. Leikskólalóðinn við Krílakot. María vék af fundi kl. 13:57. Halla Dögg vék af fundi kl. 14:24.Niðurstaða:Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að haldinn verði sem fyrst opinn fundur með verktökum þar sem farið verði yfir fjárfestingar og framkvæmdir sem eru á áætlun Dalvíkurbyggðar. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að beðið verði með að setja framkvæmdir við Böggvisbraut og Karlsrauðatorg í gang þar til búið er að kafa nánar ofan í forsendur."

Ofangreindur opinn verktaka fundur var haldinn í Menningarhúsinu Bergi þriðjudaginn 5. mars sl.

Helga Íris og María viku af fundi kl. 15:22.

Byggðaráð þakkar sveitarstjóra, deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar, skipulagsfulltrúa og veitustjóra fyrir vel heppnaðan fund og góðan undirbúning.
Lagt fram til kynningar.

7.Frá starfsmönnum Krílakots vegna styttingu vinnuvikunnar

Málsnúmer 202402064Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs kl. 15:25.
Vinnutímanefnd Leikskólans Krílakots; Guðrún Halldóra Jóhannsdóttir, leikskólastjóri, Ágústa Kristín Bjarnadóttir, aðstoðarleikskólastjóri, Arna Guðrún Arngrímsdóttir, deildarstjóri, Bjarney Anna Sigfúsdóttir, sérkennslustjóri, Guðrún Hrönn Tómasdóttir, leiðbeinandi, Una Dan Pálmadóttir, leiðbeinandi.
Frá fræðsluráði: Jolanta Krystyna Brandt, formaður, og Benedikt Snær Magnússon, varaformaður.
Gísli Bjarnason, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, og Íris Daníelsdóttir, mannauðs- og launafulltrúi.

Á 1097. fundi byggðaráðs þann 22. febrúar sl. var eftirfarandi bókað:
"Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs, Íris Daníelsdóttir, mannauðs- og upplýsingafulltrúi, kl. 15:00. Á 290. fundi fræðsluráðs þann 14. febrúar 2024 var eftirfarandi bókað: "Tekið fyrir bréf frá starfsfólki Krílakots dags. 13.02.2024.Niðurstaða:Fræðsluráð óskar eftir fundi með starfs - og kjaranefnd, stjórnendum leikskóla og fulltrúum starfsfólks. Sviðsstjóra falið að boða til fundar." Með fundarboði byggðaráðs fylgdi erindi starfsmanna Krílakots, dagsett í febrúar 2024, til sveitarstjórnar, starfs- og kjaranefndar og fræðsluráðs vegna styttingu vinnuvikunnar. Fram kemur í erindinu að starfsmenn Krílakots eru búnir að prófa 3 útfærslur að styttingu en allar valda þær auknu álagi, meiri skipulagningu með mönnun á stjórnendur og skerðingu á þjónustu. Ofan á styttingu kemur svo veikindi og önnur forföll starfsmanna. Fram kemur að um sé að ræða hálfa styttingu í leikskólanum Krílakoti en starfsmenn eru ekki tilbúnir að selja kaffitímana sína. Fram koma nokkrar tillögur að útfærslum. Með fundarboði fylgdu upplýsingar um samkomulag á styttingu vinnuvikunnar eins og hún er nú á Krílakoti skv. tillögum frá vinnuhópi/ stjórnendum, sbr. erindi dagsett þann 26. maí 2023. Einnig upplýsingar úr kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags leikskólakennara. Til umræðu ofangreint. Íris vék af fundi kl. 15:30.Niðurstaða:Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að óska eftir að vinnutímanefnd Krílakots fundi og komi á fund byggðaráðs með útfærða tillögu um styttingu vinnuvikunnar/betri vinnutíma, ásamt sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs og mannauðs- og launafulltrúa. Jafnframt óskar byggðaráð eftir að formaður og varaformaður fræðsluráðs sitji fundinn."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi erindi frá vinnutímanefnd Krílakots, dagsett þann 5. mars sl., er varðar tillögur og rökstuðning vegna betri vinnutíma. Fram koma tvær tillögur. Fram kemur m.a. að mjög brýnt sé að færa starfsumhverfi leikskólanna nær öðrum skólastigum þannig að leikskólakennarar velji síður að starfa frekar í grunn- og framhaldsskólum.

Til umræðu ofangreint.

Guðrún Halldóra, Ágústa Kristín, Arna Guðrún, Bjarney Anna, Guðrún Hrönn, Una Dan, Jolanta, Benedikt Snær, Gísli og Íris viku af fundi kl.16:09.




Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að leggja til við fræðsluráð að skoða að taka tillit til tillögu 1 í erindi vinnutímanefndar í næsta skóladagatali.

8.Frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra; 2024014947 - umsagnarbeiðni rekstrarleyfi gistingar. Fjallkonan - Húsabakka

Málsnúmer 202402141Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dagsett þann 27. febrúar sl., þar sem óskað er umsagnar um rekstrarleyfi gistingar í flokki IV frá Fjallkonunni ehf. vegna Húsabakka.

Byggðaráð gerir ekki athugasemdir við að leyfið sé veitt með fyrirvara um umsagnir byggingafulltrúa, slökkviliðsstjóra og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
Vísað til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar.

9.Frá Markaðsstofu Norðurlands; Aðgerðaráætlun ferðaþjónustunnar í Samráðsgátt

Málsnúmer 202402146Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Markaðsstofu Norðurlands, dagsett þann 28. febrúar sl., þar sem fram kemur að drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun ferðaþjónustunnar eru nú komin í Samráðsgátt stjórnvalda: https://island.is/samradsgatt/mal/3702. Mikil vinna hefur verið lögð í áætlunina undanfarin misseri og eru sveitarfélögin hvött til að skoða tillöguna og senda inn umsagnir ef einhverju þarf að koma á framfæri. Verkefnið er opið til umsagna til 12. mars.
Lagt fram til kynningar.

10.Brák íbúðafélag hses. - næstu skref

Málsnúmer 202402067Vakta málsnúmer

Á 1096. fundi byggðaráðs þann 15. febrúar sl. var eftirfarandi bókað:
"Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri Brákar íbúðafélags hses, í gegnum TEAMS kl. 12:38. https://brakibudafelag.is/ Elmar kynnti starfsemi félagsins. Á heimasíðu félagsins kemur fram: Brák íbúðafélag hses. er húsnæðissjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2022 af sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum húsnæðissjálfseignastofnunum með fáar íbúðir í rekstri. Stofnendur Brákar eru nú orðnir 31 sveitarfélag. Brák er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna. Elmar vék af fundi kl. 13:00.Niðurstaða:Byggðaráð þakkar Elmari fyrir kynninguna. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu til frekari umfjöllunar í byggðaráði."
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að leggja til við sveitarstjórn að Dalvíkurbyggð óski eftir á næsta aðalfundi að gerast aðili að Brák íbúðafélagi hses.

11.Selárland - uppbyggingarsvæði - viljayfirlýsing - staða mála

Málsnúmer 202308038Vakta málsnúmer

Á 1098. fundi byggðaráðs þann 29. febrúar sl. var eftirfarandi bókað:
"Á 1097. fundi byggðaráðs þann 22. febrúar sl. var m.a. eftirfarandi bókað: "Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs upplýsti um stöðu mála hvað varðar drögin að viljayfirlýsingunni. Ábendingar og athugasemdir hafa komið frá forsvarsmönnum Ektabaða ehf. og það eru nokkur atriði sem þarf að fara í gegnum og ræða.Niðurstaða:Lagt fram til kynningar og áfram verður unnið að málinu." Með fundarboði byggðarráðs fylgdu drög að ofangreindri viljayfirlýsingu með breytingartillögum frá forsvarsmönnum Ektabað ehf. Sveitarstjóri og sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs gerðu grein fyrir fundi með bæjarlögmmani þar sem farið var þær breytingar sem lagðar eru til ásamt yfirferð skipulagsfulltrúa. Á fundinum var farið yfir drög að viljayfirlýsingunni með tillögum Dalvíkurbyggðar að breytingum við tillögum forsvarsmanna Ektabaða ehf. Niðurstaða:Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að senda forsvarsmönnum Ektaböðum ehf. viljayfirlýsinguna til yfirferðar eins og hún liggur fyrir með ábendingum sem komu fram á fundi byggðaráðs. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Ektabaða ehf. þar sem farið verði yfir viljayfirlýsinguna í sameiningu."

Á fundinum var kynntur rafpóstur frá Helga Jóhannessyni, lögmanni fyrir hönd Ektabaða ehf., dagsettur þann 6 mars sl., þar sem meðfylgjandi er ofangreind viljayfirlýsingu með breytingartillögum Ektabaða ehf. Ektaböð ehf. sjá fyrir sér að næstu skref ættu að vera sameiginlegur fundur framkvæmdaaðila og Dalvíkurbyggðar til að fínpússa viljayfirlýsinguna.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að finna fundartíma í næstu viku.

12.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; 80 ára afmæli lýðveldisins - Bréf til sveitarstjórna

Málsnúmer 202403004Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett þann 1. mars 2024, þar sem fram kemur að athygli sveitarstjórna er vakin á því að á árinu fagnar lýðveldið Ísland áttatíu ára afmæli.

Hátíðahöld í tilefni afmælisins munu ná hámarki 17. júní með hefðbundinni dagskrá í sveitarfélögum en að auki verður sérstök hátíðardagskrá á Þingvöllum þar sem landsmenn eru hvattir til að heimsækja þjóðgarðinn og skoða sýninguna Hjarta lands og þjóðar helgina 15.-16. júní.

Í meðfylgjandi bréfi óskar afmælisnefnd, sem forsætiráðherra skipaði í október sl., eftir samstarfi við sveitarfélög í tengslum við hátíðardagskrána með miðlun og hvatningu til þátttöku eins og best hentar á hverjum stað.
a) Byggðaráð vísar til upplýsingafulltrúa að miðla upplýsingum til íbúa sveitarfélagsins um hátíðardagskrána með hvatningu frá sveitarstjórn um þátttöku.
b) Byggðaráð vísar til menningarráðs og sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs að taka til skoðunar hvort og hvernig vakin verði athygli á afmælinu í dagskrá Dalvíkurbyggðar 17. júní nk.

13.Frá Lánasjóði sveitarfélaga; Fundarboð á aðalfund Lánsjóðsins 14.03.2024

Málsnúmer 202402157Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Lánasjóði sveitarfélaga, ódagsett, þar sem boðar til aðalfundar Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. fimmtudaginn 14. mars nk. kl. 16:30 í Reykjavík.Allir sveitarstjórnarfulltrúar eiga rétt á að sækja aðalfundinn. Sveitarstjóri er sjálfkrafa handhafi atkvæðiréttar sveitarfélagsins. Boðið er upp á fullgilda rafræna þátttöku í samræmi við samþykktir sjóðsins.
Lagt fram til kynningar.

14.Frá Alþingi; Ný umsagnagátt tekin í notkun hjá Alþingi

Málsnúmer 202402148Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis, dagsett þann 28. febrúar sl., þar sem fram kemur að Alþingi opnaði nýja umsagnargátt miðvikudaginn 28. febrúar sl.

Umsagnagáttinni er ætlað að einfalda ferlið fyrir þau sem vilja senda inn umsagnir um þingmál sem eru í umfjöllun fastanefnda, tryggja betur öryggi gagna og rekjanleika auk þess sem birting verður skilvirkari. Umsagnaraðilar skrá sig inn gáttina með rafrænum skilríkjum, velja þingmál af lista, skrá upplýsingar um umsagnaraðila, draga viðeigandi skjöl inn í gáttina og senda.
Lagt fram til kynningar.

15.Frá Miðgarði Akstursíþróttafélagi; Íslandsmeistaramót í Snocross 23. Mars á Dalvík

Málsnúmer 202403002Vakta málsnúmer

Undir þessum lið vék Freyr Antonsson af fundi kl. 16:31 vegna vanhæfis og tók ekki þátt í umfjöllun og afgreiðslu.

Tekið fyrir erindi frá Frey Antonssyni, dagsett þann 29. febrúar sl, þar sem sótt er um í nafni Miðgarðs Aktursíþróttafélags, KKA Akstursíþróttafélags og MSÍ Mótorhjóla- og snjósleðasamband Íslands um formlegt leyfi til að halda Íslandsmeistrarmót í Snocross á Dalvík 23. mars fyrir norðan fiskvinnsluhús Samherja. Svæðið er á hafnarsvæðinu og er merkt með grænu á meðfylgjandi mynd.Í undirbúningi og meðan á keppni stendur verður snjó safnað á svæðið og úr honum dreift til að mynda keppnishring. Áhorfendasvæði verða sett upp og öryggissvæði skilgreint samkvæmt Snocross reglum MSÍ sem eru meðfylgjandi. Leitað verður samráðs og sótt um leyfi til lóðarhafa á svæðinu.

Sveitarstjóri upplýsti að erindið var á dagskrá veitu- og hafnaráðs sl. miðvikudag til umsagnar en það þurfti að taka málið af dagskrá þar sem 3 kjörnir fulltrúar af 5 mættu á fundinn, einn af þeim var vanhæfur í málinu og því var fundurinn orðinn ólögmætur til að fjalla um og afgreiða málið.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 2 atkvæðum að leggja til við sveitarstjórn að umbeðið leyfi sé veitt með því skilyrði að mótshaldarar gangi vel um, gangi frá svæðinu að móti loknu og sæki um öll viðeigandi leyfi.

Fundi slitið - kl. 17:19.

Nefndarmenn
  • Helgi Einarsson formaður
  • Freyr Antonsson varaformaður
  • Lilja Guðnadóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
  • Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs