Málsnúmer 202402064Vakta málsnúmer
Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs kl. 15:25.
Vinnutímanefnd Leikskólans Krílakots; Guðrún Halldóra Jóhannsdóttir, leikskólastjóri, Ágústa Kristín Bjarnadóttir, aðstoðarleikskólastjóri, Arna Guðrún Arngrímsdóttir, deildarstjóri, Bjarney Anna Sigfúsdóttir, sérkennslustjóri, Guðrún Hrönn Tómasdóttir, leiðbeinandi, Una Dan Pálmadóttir, leiðbeinandi.
Frá fræðsluráði: Jolanta Krystyna Brandt, formaður, og Benedikt Snær Magnússon, varaformaður.
Gísli Bjarnason, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, og Íris Daníelsdóttir, mannauðs- og launafulltrúi.
Á 1097. fundi byggðaráðs þann 22. febrúar sl. var eftirfarandi bókað:
"Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs, Íris Daníelsdóttir, mannauðs- og upplýsingafulltrúi, kl. 15:00. Á 290. fundi fræðsluráðs þann 14. febrúar 2024 var eftirfarandi bókað: "Tekið fyrir bréf frá starfsfólki Krílakots dags. 13.02.2024.Niðurstaða:Fræðsluráð óskar eftir fundi með starfs - og kjaranefnd, stjórnendum leikskóla og fulltrúum starfsfólks. Sviðsstjóra falið að boða til fundar." Með fundarboði byggðaráðs fylgdi erindi starfsmanna Krílakots, dagsett í febrúar 2024, til sveitarstjórnar, starfs- og kjaranefndar og fræðsluráðs vegna styttingu vinnuvikunnar. Fram kemur í erindinu að starfsmenn Krílakots eru búnir að prófa 3 útfærslur að styttingu en allar valda þær auknu álagi, meiri skipulagningu með mönnun á stjórnendur og skerðingu á þjónustu. Ofan á styttingu kemur svo veikindi og önnur forföll starfsmanna. Fram kemur að um sé að ræða hálfa styttingu í leikskólanum Krílakoti en starfsmenn eru ekki tilbúnir að selja kaffitímana sína. Fram koma nokkrar tillögur að útfærslum. Með fundarboði fylgdu upplýsingar um samkomulag á styttingu vinnuvikunnar eins og hún er nú á Krílakoti skv. tillögum frá vinnuhópi/ stjórnendum, sbr. erindi dagsett þann 26. maí 2023. Einnig upplýsingar úr kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags leikskólakennara. Til umræðu ofangreint. Íris vék af fundi kl. 15:30.Niðurstaða:Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að óska eftir að vinnutímanefnd Krílakots fundi og komi á fund byggðaráðs með útfærða tillögu um styttingu vinnuvikunnar/betri vinnutíma, ásamt sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs og mannauðs- og launafulltrúa. Jafnframt óskar byggðaráð eftir að formaður og varaformaður fræðsluráðs sitji fundinn."
Með fundarboði byggðaráðs fylgdi erindi frá vinnutímanefnd Krílakots, dagsett þann 5. mars sl., er varðar tillögur og rökstuðning vegna betri vinnutíma. Fram koma tvær tillögur. Fram kemur m.a. að mjög brýnt sé að færa starfsumhverfi leikskólanna nær öðrum skólastigum þannig að leikskólakennarar velji síður að starfa frekar í grunn- og framhaldsskólum.
Til umræðu ofangreint.
Guðrún Halldóra, Ágústa Kristín, Arna Guðrún, Bjarney Anna, Guðrún Hrönn, Una Dan, Jolanta, Benedikt Snær, Gísli og Íris viku af fundi kl.16:09.
Lagt fram til kynningar.