Byggðaráð

1086. fundur 02. nóvember 2023 kl. 13:15 - 15:45 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Helgi Einarsson formaður
  • Freyr Antonsson varaformaður
  • Lilja Guðnadóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
  • Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Útboð á ræstingum hjá stofnunum Dalvíkurbyggðar - niðurstöður

Málsnúmer 202308076Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Gísli Bjarnason, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, kl. 13:15.

Tekið fyrir minnisblað frá sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs, dagsett þann 17. október sl., þar sem fram kemur að útboðsgögn vegna ræstingar hjá stofnunum Dalvíkurbyggðar 2023-2026 voru tilbúin til afhendingar á skrifstofu Dalvíkurbyggðar 25. ágúst 2023. Það voru þrír aðilar sem óskuðu eftir gögnum og tveir aðilar komu í vettvangsskoðun. Opnun á tilboðum var auglýst 29. september kl. 10:15 á efstu hæð í Ráðhúsi Dalvíkurbyggðar. Það var einn aðili sem skilaði inn tilboði.

Tilboðið sem barst er frá Dögum. Fram kemur að miðað við kostnaðaráætlun þá er tilboðið 44% hærra miðað við forsendur sem voru í útreikningum. Sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs leggur til að gengið verði til samninga við Daga hf. á grundvelli tilboðs frá 29. september sl.

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs upplýsti að stjórn húsfélags Ráðhúss Dalvíkur fjallaði um þann hluta tilboðsins er snýr að sameign á fundi sínum þann 18. október sl. og samþykkti að gengið verði til samninga við Daga varðandi sameignina.

Gísli vék af fundi kl. 13:40.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda tillögu og leggur til við sveitarstjórn að gengið verði til samninga við Daga á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs og útboðsgagna.

2.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Staðgreiðsluáætlun sveitarfélaga

Málsnúmer 202310042Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsettur þann 9. október sl. þar sem fram kemur að Hag- og upplýsingasvið Sambandsins hefur gefið út staðgreiðsluáætlun sveitarfélaga fyrir árin 2023 og 2024. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er gert ráð fyrir að útsvarsstofninn hækki að meðaltali á öllu landinu um 7,2% á milli ára 2023 og 2024.


Hér er hægt að nálgast áætlunina:
https://www.samband.is/wp-content/uploads/2023/10/stadgreidsluaaetlun-okt-2023.pdf

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs upplýsti að tekið var mið af ofangreindu í tengslum við áætlun útsvarstekna Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2024.
Lagt fram til kynningar.

3.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Þátttaka og framlög sveitarfélaga til stafræns samstarfs 2024

Málsnúmer 202310095Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, rafpóstur dagsettur þann 19. október sl., þar sem fram kemur að vegna fjárhagsáætlanagerðar sveitarfélaga 2024 fylgir með samantekt um kostnaðarþátttöku fyrir samstarf sveitarfélaga um stafrænna þróun og umbreytingu.

Föst greiðsla Dalvíkurbyggðar árið 2024 er kr. 489.465 og greiðsla vegna verkefna er kr. 203.849 eða alls kr. 693.315.

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs upplýsti að búið er að gera ráð fyrir ofangreindu í tillögum að starfs- og fjárhagsáætlun 2024 á deild 21400 og í starfsáætlun fjármála- og stjórnsýslusviðs.
Lagt fram til kynningar.

4.Frá UT_teymi; Netárás á tölvukerfi Dalvíkurbyggðar - framtíðarfyrirkomulag netöryggismála

Málsnúmer 202305096Vakta málsnúmer

Á 1072. fundi byggðaráðs þann 29. júní sl. samþykkti byggðaráð samhljóða með 3 atkvæðum að vísa framtíðarfyrirkomulagi netöryggismála sveitarfélagsins til UT-teymis Dalvíkurbyggðar í kjölfar netárásar sem sveitarfélagið varð fyrir í maí sl.

Með fundarboði fylgdi minnisblað innanhúss er varðar högun netöryggismála sveitarfélagsins og gert er ráð fyrir þeim tillögum í starfs- og fjárhagsáætlun 2024.
Lagt fram til kynningar.

5.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202310009Vakta málsnúmer

Beiðni um viðauka vegna veikinda.


Að öðru leiti er málið bókað í trúnaðarmálabók.
Eyrún Ingibjörg kom inn á fundinn undir þessum lið kl. 13:58 vegna annarrra verkefna.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum viðaukabeiðni að upphæð kr. 2.038.743 á deild xxxxx-laun,viðauki nr. 34 við fjárhagsáætlun 2023, og að honum verði mætt með lækkun á handbæru fé. Vísað til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar.
Að öðru leiti er málið bókað í trúnaðarmálabók.

6.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202303104Vakta málsnúmer

Beiðni um viðauka - bókað í trúnaðarmálabók.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum viðauka nr. 35 og vísar honum til umfjöllunar og afgreiðslu í sveitarstjórn á deild 02570. Byggðaráð leggur til að viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé.

7.Úttekt á rekstri hafna Dalvíkurbyggðar; KPMG

Málsnúmer 202310141Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá sveitarstjóra, dagsett þann 31. október sl., þar sem óskað er eftir viðauka við fjárhagsáætlun 2023 að upphæð kr. 3.300.000 án vsk. vegna úttektar á rekstri hafna Dalvíkurbyggðar í ljósi hallarekstur. Fyrir liggur samþykki frá sveitarstjórn á tillögu veitu- og hafnaráðs um að gerð verði úttekt á rekstri Hafnasjóðs. Með fundarboði fylgdi einnig verkefna tillaga frá KPMG varðandi útttektina.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda beiðni um viðauka vegna úttektar á rekstri Hafnasjóðs, viðauki nr. 36 við fjárhagsáætlun 2023, að upphæð kr. 3.300.000 á lið 41210-4391 þannig að hann verði kr. 3.400.000 í stað kr. 100.000 og að honum verði mmætt með lækkun á handbæru fé. Vísað til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar.
Byggðaráð gerir ekki athugasemdir við meðfylgjandi verkefnatillögu frá KPMG.

8.Barnaverndarþjónusta - endurskoðun á samningi

Málsnúmer 202212124Vakta málsnúmer

Á 1080. fundi byggðaráðs þann 14. september sl. kom fram að endurskoðun á samningi um Barnaverndarþjónustu Eyjafjarðar væri í gangi á milli Akureyrarbæjar og Dalvíkurbyggðar.

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi tillaga að endurskoðuðum samningi þar sem fram koma tillögur að breytingum eftir yfirferð starfsmanna barnaverndar Dalvíkurbyggðar og Akureyrarbæjar, sveitarstjóra og ráðuneytisins.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum fyrirliggjandi samningsdrög og vísar þeim til fyrri umræðu í sveitarstjórn þann 7. nóvember nk.

9.Frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands; Ágóðahlutagreiðsla 2023

Málsnúmer 202310070Vakta málsnúmer

Tekið fyrir bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands, dagsett þann 13. október sl., þar sem fram kemur að hlutdeild Dalvíkurbyggðar í Sameignarsjóði EBÍ er kr. 842.000 skv. ákvörðun fulltrúarráðs EBÍ á aðalfundi þann 6. október sl.
Lagt fram til kynningar.

10.Frá Markaðsstofu Norðurlands; Skýrsla Flugklasans Air 66N - 2023

Málsnúmer 202305060Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Markaðsstofu Norðurlands, dagsettur þann 25. október sl., þar sem fram kemur að á þriðjudaginn, þann 31. október, mun fyrsta flugvélin frá breska flugfélaginu easyJet lenda á Akureyrarflugvelli, en félagið mun halda úti áætlunarflugi á milli London Gatwick og Akureyrar út mars 2024. Flogið verður tvisvar í viku, á þriðjudögum og laugardögum.

Einnig fylgdi með skýrsla yfir starf Flugklasans Air 66N frá 1. maí til og með 25. október 2023. Fram kemur m.a. að að óbreyttu verður verkefnum Flugklasans hætt um næsta áramót þar sem fjármögnun hefur ekki fengið í verkefnið.

Lagt fram til kynningar.

11.Frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis; Til umsagnar frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, 238. mál.

Málsnúmer 202310038Vakta málsnúmer

Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við hvalveiðum, 99. mál, sbr. rafpóstur frá 9.10.2023. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 24. október sl.
Lagt fram til kynningar.

12.Frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis; Til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við hvalveiðum, 99. mál

Málsnúmer 202310044Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024 - 2028, 315. mál., sbr. rafpóstur dagsettur þann 12.10.2023.
Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 26. október sl.
Lagt fram til kynningar.

13.Frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis; Til umsagnar tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024 - 2028, 315. mál.T

Málsnúmer 202310060Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024 ? 2028, 315. mál., sbr. rafpóstur frá 12.10.2023.
Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 26. október sl.
Lagt fram til kynningar.

14.Frá Innviðaráðuneytinu; Reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga og leiðbeiningar um framkvæmd

Málsnúmer 202310081Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Innviðaráðuneytinu, dagsettur þann 18. október sl, þar sem vakin er athygli á nýrri reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga nr. 922/2023.
https://island.is/reglugerdir/nr/0922-2023

Reglugerðin fjallar um íbúakosningar á grundvelli 133. gr. sveitarstjórnarlaga sem ekki fara fram með rafrænum hætti. Reglugerðin hefur það markmið að einfalda og minnka umfang íbúakosninga sveitarfélaga og auka vald sveitarfélaga hvað kosningarétt varðar í ráðgefandi íbúakosningum. Reglugerðinni er jafnframt ætlað að auka lýðræðisþátttöku og sjálfbærni sveitarfélaga og þannig efla sveitarstjórnarstigið í heild.
Íbúakosningar sveitarfélaga eru af þrennum toga sem falla allar undir gildissvið reglugerðarinnar. Um er að ræða:

Kosningar í nefnd sem fer með málefni fyrir hluta sveitarfélags, sbr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga
Sameiningakosningar sveitarfélaga, sbr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga
Íbúakosningar um einstök málefni, sbr. 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga

Ráðuneytið hefur jafnframt birt leiðbeiningar um framkvæmd íbúakosninga á vef sínum,
https://www.stjornarradid.is/verkefni/sveitarstjornir-og-byggdamal/sveitarstjornarmal/verkfaerakista/leidbeiningar-fyrir-ibuakosningar-sveitarfelaga/

Sérstök athygli er vakin á þeim breytingum sem hafa verið gerðar á framkvæmd íbúakosninga sem fram fara að frumkvæði sveitarstjórnar og ekki eru bindandi.

Sveitarstjórn getur nú ákveðið að halda íbúakosningu fyrir tiltekinn aldur íbúa, t.d. 16-20 ára eða 60 ára og eldri, fyrir erlenda ríkisborgara sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu eða fyrir íbúa sem hafa lögheimili í tilteknum hluta sveitarfélagsins. Auk þess er gert ráð fyrir að framkvæmd og fyrirkomulag slíkra kosninga sé mun umfangsminna en um aðrar bindandi íbúakosningar sveitarfélaga. Með þessu er sveitarfélögum gefið tækifæri til að efla lýðræðivitund og þekkingu ungs fólks og auka lýðræðisþáttöku erlendra ríkisborgara. Eru sveitarfélög sérstaklega hvött til að kynna sér nýtt fyrirkomulag slíkra kosninga.
Lagt fram til kynningar.

15.Frá SSNE; Fundargerð nr. 55.

Málsnúmer 202301151Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar SSNE nr. 55 frá 04.10.2023.
Lagt fram til kynningar.

16.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Fundargerð stjórnar nr. 935

Málsnúmer 202301152Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga nr. 935 frá 16.10.2023.
Lagt fram til kynningar.

17.Frá Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga; Fundargerðir nr. 73 og nr. 74

Málsnúmer 202301097Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga nr. 73 og nr. 74 frá 12. maí sl. og 5. september sl.
Lagt fram til kynningar.

18.Starfs- og fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun 2025-2027; tillaga að fjárhagsáætlunarlíkani.

Málsnúmer 202304162Vakta málsnúmer

a) Fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun til fyrri umræðu.

Á 1085. fundi byggðaráðs þann 25. október sl. var lokið við yfirferð á tillögum frá stjórnendum og fagráðum vegna vinnu við starfs- og fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun 2025-2027. Byggðaráð samþykkti samhljóða með 3 atkvæðum að vísa þeirri vinnu til gerðar starfs- og fjárhagsáætlunar í samræmi við umfjöllun byggðaráðs.

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fór yfir helstu niðurstöður úr fjárhagsáætlunarlíkani fyrir fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlunar 2025-2027 skv. meðfylgjandi gögnum.


b) Útkomuspá 2023/ heildarviðauki II

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi einnig tillaga að útkomuspá 2023/ heildarviðauka II við fjárhagsáætlun 2023 með þeim viðaukum sem gerðir hafa verið og samþykktir í sveitarstjórn frá heildarviðauka I.

a) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun 2025-2027 til fyrri umræðu í sveitarstjórn eins og það liggur fyrir.
b) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa tillögu að útkomuspá/ heildarviðauka II við fjárhagsáætlun 2023 til umfjöllunar og afgreiðslu í sveitarstjórn.

Fundi slitið - kl. 15:45.

Nefndarmenn
  • Helgi Einarsson formaður
  • Freyr Antonsson varaformaður
  • Lilja Guðnadóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
  • Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs