Byggðaráð

782. fundur 30. júní 2016 kl. 13:00 - 14:50 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Formaður
  • Kristján Guðmundsson Varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Bjarni Theódór Bjarnason Sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sviðstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Frá sviðsstjórum umhverfis- og tæknisviðs og veitu- og hafnasviðs; Eimskipafélag Íslands hf, viðræður um lóðamál 2016.

Málsnúmer 201605061Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Börkur Þór Ottósson, sviðsstjóri umhverfis- og tæknisvið, og Þorsteinn K. Björnsson, sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs,kl.13:10.



Með fundarboði byggðaráðs fylgdi drög að samkomulagi við Eimskip hvað varðar riftun á lóðarleigusamningi, dagsettum þann 2. júlí 1992, um lóð með landnr. 151798 við Dalvíkurhöfn. Í stað þeirrar lóðar sem Eimskip Ísland ehf. hefur haft til leigu mun Dalvíkurbyggð úthluta félaginu nýrri lóð á hafnarsvæðinu. Forsendur þessa samkomulags eru þær að sótt hefur verið um lóð við Dalvíkurhöfn til byggingar á stóru fiskvinnsluhúsi.



Með fundarboði byggðaráðs fylgdi einnig svar Eimskips við ofangreindu drögum að samkomulagi, bréf dagsett þann 28. júní 2016.



Til umræðu ofangreint.



Þorsteinn vék af fundi kl. 13:32.
Sveitarstjóra ásamt sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs er falið að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður á fundinum.

2.Frá sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs; Áning ferðamanna fyrir utan skipulögð tjaldsvæði

Málsnúmer 201606128Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs, bréf dagsett þann 29. júní 2016, þar sem lagt er til að sveitarfélagið gefi út eftirfarandi yfirlýsingu til að bregðast við að þess hefur orðið vart í auknu mæli í sveitarfélaginu að ferðamenn eru að setja niður íveruhýsi, vagna og/eða -bíla sína á svæðum án heimilda, bæði í þéttbýli og þess utan:



Yfirlýsing vegna gistingar á almannafæri í Dalvíkurbyggð



Eigi má gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum og tjaldvögnum á almannafæri í þéttbýli utan sérmerktra svæða, sbr. 9. gr., 4. mgr. lögreglusamþykktar fyrir Dalvíkurbyggð nr. 734/2008.

Ofangreint á einnig almennt við um gistingu á almannafæri innan marka sveitarfélagsins.



Óheimilt er að hafa gistingu í tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði utan skipulagðra tjaldstæða og þéttbýlis nema leyfi landeiganda eða rétthafa lands komi þar til, sbr. lög um náttúruvernd nr. 60/2013 með síðari breytingum.



Til umræðu ofangreint.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda tillögu.

3.Frá Skipulagsstofnun; Landsskipulagsstefna 2015-2026

Málsnúmer 201606075Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Skipulagsstofnun, bréf dagsett þann 20. júní 2016, þar sem kynnt er að þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2015-2026 var samþykkt á Alþingi 16. mars s.l. Kveðið er á um gerð landsskipulagsstefnu í skipulagsslögum, en hún felur í sér samræmda stefnu ríksisns um skipulagsmál.



Fram kemur m.a. að skipulagslög mæla fyrir um að samræma skuli skipulagsáætlanir sveitarfélaga landssskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Jafnframt þarf að taka mið af landsskipulagsstefnu þegar gerðar eru breytingar á aðal- og svæðisskipulagi. Í haust er fyrirhugaðir kynningarfundir í öllum landsfjórðungum. Til að stuðla að góðri upplýsingamiðlun og samráði við framfylgd stefnunnar mun Skipulagsstofnun mynda samráðsvettvang. Skipulagsstofnun óskar eftir skráningu tengiliða á samráðsvettvanginn.



Til umræðu ofangreint.



Börkur vék af fundi kl. 14:45.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs verði tengiliður Dalvíkurbyggðar og vísar þessu erindi áfram til umhverfisráðs.

4.Frá Ferðamálastofu; Ósk um samstarf við Ferðamálastofu

Málsnúmer 201606117Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Margrét Víkingsdóttir, upplýsingafulltrúi, kl. 13:50.



Tekið fyrir bréf frá Ólöfu Ýrr Atladóttur, ferðamálastjóra, bréf dagsett þann 23. júní 2016, er varðar ósk um samstarf vegna mats og kortlagningar viðkomustaða ferðafólks. Um er að ræða framhald verkefnis sem gengið hefur undir nafninu "Kortlagning auðlinda ferðaþjónustunnar". Til að vinna verkefnið áfram telur Ferðamálastofa vænlegra að leita nú eftir beinu samstarfi við hvert sveitarfélag þannig að tilefndur verði af þess hálfu ábyrgur aðili til að fara yfir gögn sem enn eru til staðar en hafa ekki verið birt, ásamt því að koma með tillögur að nýjum stöðum. Ferðamálastofa mun greiða sveitarfélögum fyrir þá vinnu sem til fellur vegna þessa þannig að greitt verði einingarverð sem nemur kr. 5.000 á hvern stað sem er rýndur eða tilnefndur.



Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að upplýsingafulltrúi og sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs verði tengiliðir sveitarfélagsins vegna þessa verkefnis.

Byggðaráð vísar erindinu áfram til atvinnumála- og kynningarráðs.

5.Frá Markaðsstofu ferðamála; Þjónustusamningur milli Dalvíkurbyggðar og Markaðsstofu ferðamála

Málsnúmer 201606078Vakta málsnúmer

Tekið fyrir rafbréf frá Markaðsstofu Norðurlands, dagsett þann 21. júní 2016, er varðar þjónustusamning á milli Dalvíkurbyggðar og Markaðsstofu Norðurlands. Meðfylgjaandi eru drög samningi með gildistíma 1. janúar 2016 - 31. desember 2018. Samningurinn er uppsegjanlegur árlega, uppsögn miðast við áramót með þriggja mánaða fyrirvara.



Til umræðu ofangreint.



Margrét vék af fundi kl.14:20.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum samninginn eins og hann liggur fyrir.

6.Frá innanríkisráðuneytinu; Tilraunaverkefni um rafrænar íbúakosningar

Málsnúmer 201606124Vakta málsnúmer

Tekið fyrir bréf frá innanríkisráðuneytinu, dagsett þann 24. júní 2016, þar sem vakin er athygli sveitarfélaga á tilraunaverkefninu um rafrænar íbúakosningar. Sveitarfélög sem hyggjast halda íbúakosningar eru hvött til að kynna sér verkefnið og gefa sig fram við Þjóðskrá Íslands, hafi þau áhuga á þátttöku.
Lagt fram til kynningar.

7.Samstarfssamningur um málefni fatlaðra

Málsnúmer 201604055Vakta málsnúmer

Á 199. fundi félagsmálaráðs þann 10. maí 2016 var eftirfarandi bókað:

"Lögð var fram til kynningar tillaga að samstarfssamningi milli Dalvikurbyggðar og Fjallabyggðar um málefni fatlaðra 2016.

Félagsmálaráð fagnar því að komin sé á samvinna við Fjallabyggð í málefnum fatlaðra. Ljóst er að mörg verkefni eru framundan og ber þar helst að nefna þörf á búsetu og atvinnuúrræðum fyrir fötluð ungmenni."



Með fundarboði byggðaráðs fylgdi samstarfssamningur um sameiginlegt þjónustusvæði Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar um þjónustu við fólk með fötlun, undirritaður af sveitarstjórum Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum samninginn eins og hann liggur fyrir og fagnar því að þessi samstarfssamningur sé kominn á.

8.Frá stjórn Dalbæjar; Fundargerð frá stjórnarfundi 28. júní 2016.

Málsnúmer 201602099Vakta málsnúmer

Tekin fyrir fundargerð stjórnar Dalbæjar frá 28. júní 2016.
Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 14:50.

Nefndarmenn
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Formaður
  • Kristján Guðmundsson Varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Bjarni Theódór Bjarnason Sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sviðstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs