Byggðaráð

1022. fundur 24. mars 2022 kl. 08:15 - 09:32 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Þórhalla Karlsdóttir varamaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson formaður
  • Guðmundur St. Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Frá 343. fundi sveitarstjórnar þann 22.03.2022; Krílakot - Endurnýjun á leikskólalóð

Málsnúmer 202202100Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Helga Íris Ingólfsdóttir, deildarstjóri Eigna- og framkvæmdadeildar og Bjarni Daníel Daníelsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs, kl. 8:23.

Á 343. fundi sveitarstjórnar þann 22. mars 2022 var eftirfarandi bókað:
"Á 369. fundi umhverfisráðs þann 4. mars 2022 var eftirfarandi bókað:
"Tekið fyrir erindi frá Gísla Bjarnasyni, sviðsstjóra Fræðslusviðs Dalvíkurbyggðar, þar sem hann óskar eftir stækkun lóðar Krílakots (Karlsrauðatorg 23) vegna endurnýjunar á leiksvæði leikskólans. Erindi samþykkt samhljóða með fimm atkvæðum.
Til máls tók Katrín Sigurjónsdóttir sem leggur til að þessum lið verði vísað til byggðaráðs.

Einnig tók til máls:
Þórhalla Karlsdóttir.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum ofangreinda tillögu um að vísa þessum lið til byggðaráðs."

Á fundi innkauparáðs (framkvæmdastjórnar) þann 22. desember sl. voru til umræðu innkaup Dalvíkurbyggðar samkvæmt fjárhagsáætlun 2022. Varðandi hönnun og framkvæmdir á lóð Krílakots þá var ákveðið að stofnaður yrði stýrihópur um verkefnið með hagaðilum um málið (starfsfólk, foreldrar, börn, Eignasjóður), kynnt í byggðaráði þann 6. janúar sl.

Helga Íris og Bjarni Daníel viku af fundi kl. 08:48.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að stofnaður verði stýrihópur í samræmi við fjárhagsáætlunarferli með erindisbréfi. Erindisbréf verði lagt fyrir næsta fund byggðaráðs.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að deildarstjóri Eigna- og framkvæmdadeildar geri verðfyrirspurn vegna hönnunar á leikskólalóðinni miðað við áformaða stækkun á lóðinni.

2.Frá Árskógarskóla; Viðaukabeiðni

Málsnúmer 202203125Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá skólastjóra Árskógarskóla, dagsett þann 11. mars 2022, þar sem óskað er eftir heimild til að ráða leikskólakennara/starfsmann í 100% stöðu til að hægt verði að taka við börnum sem bíða eftir leikskólaplássi. Kostnaður er átælaður kr. 1.646.196 frá 1. apríl til 8. júlí miðað við ráðningu á leikskólakennara.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda beiðni um launaviðauka við deild 04240 að upphæð kr. 1.646.196, viðauki nr. 3 við fjárhagsáætlun 2022 og að honum verði mætt með lækkun á handbæru fé. Vísað til umfjöllunar og afgreiðslu í sveitarstjórn.

3.Frá Dómsmálaráðuneytinu; Endurskipulagning sýslumannsembætta

Málsnúmer 202203124Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Dómsmálaráðherra , afrit af bréfi til Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett þann 21. mars 2022, er varðar endurskipulagningu sýslumannsembætta. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur gagngerri endurskoðun á skipulagi sýslumannsembættanna verið hleypt af stokkunum sem miðar að því að sameina embætti landsins í eitt. Með bréfi þessu freistar ráðherra þess að vekja athygli sveitarstjórnarmanna um allt land á þessu mikilvæga verkefni til þess að tryggja að sveitarstjórnarmönnum auðnist að sjá þau miklu tækifæri sem felast almennt í starfrænni vegferð hins opinbera og þá sérstaklega fyrirhuguðum breytingum á landsbyggðinni. Til að eyða öllum vafa áréttar ráðherra að markmið þeirra aðgerða sem eru boðaðar eru ekki að færa núverandi starfsemi, sem er sinnt á 27 stöðum um land allt, undir eitt þak á höfuðborgarsvæðinu. Þvert á móti er markmiðið að efla núverandi starfsemi og styrkja þær starfsstöðvar sem eru að þjónusta almenning um land allt. Fram kemur að dómsmálaráðuneytið vill gjarnan eiga farsælt samráð við sveitarfélög landsins í þeirri vinnu sem bíður ráðuneytisins næstu misserin.
Byggðaráð fagnar því að markmiðið sé að efla núverandi starfsemi og styrkja þær starfsstöðvar sem eru að þjónusta almenning um land allt og þar meðal væntanlega starfsstöðina í Dalvíkurbyggð.

4.Frá Þjóðskrá Íslands; Sveitarstjórnarkosningar 2022

Málsnúmer 202203094Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Þjóðskrá Íslands, dagsettur þann 18. mars 2022, þar sem fram kemur m.a. að viðmiðunardagur kjörskrár vegna kosninga til sveitarstjórnar þann 14. maí nk. er að þessu sinni 6. apríl nk. og þarf allri vinnu í kördeildarkerfinu að vera lokið 5. apríl nk.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að leggja til við sveitarstjórn að kjördeild verði ein í Dalvíkurbyggð, fjöldi kjörstaða einn og kosið verði í Dalvíkurskóla, samanber undanfarnar kosningar.

5.Frá UMSE; 100 ára afmæli UMSE

Málsnúmer 202203115Vakta málsnúmer

Tekið fyrir boð frá Ungmennasambandi Eyjafjarðar þar sem fulltrúum frá Dalvíkurbyggð er boðið að taka þátt í afmælishátíð UMSE 9. apríl nk. í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit kl. 16:00. Þann 8. apríl 2022 verður UMSE 100 ára.
Byggðaráð þakkar gott boð og felur sveitarstjóra að senda UMSE upplýsingar um þátttöku frá Dalvíkurbyggð.

6.Frá Veiðifélagi Svarfaðardalsár; Aðalfundarboð 2022

Málsnúmer 202203119Vakta málsnúmer

Tekið fyrir aðalfundarboð frá Veiðifélagi Svarfaðardalsár, rafpóstur dagsettur þann 21. mars sl., þar sem boðar er til aðalfundar miðvikudaginn 1. apríl 2022 kl. 20:00 að Rimum.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að mæta á fundinn fyrir hönd Dalvíkurbyggðar, til vara sviðsstjóra framkvæmdasviðs.

7.Frá SSNE; Fundargerðir 2022

Málsnúmer 202202069Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar SSNE nr. 36 frá 9. mars sl.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 09:32.

Nefndarmenn
  • Þórhalla Karlsdóttir varamaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson formaður
  • Guðmundur St. Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs