Tekið fyrir erindi frá Dómsmálaráðherra , afrit af bréfi til Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett þann 21. mars 2022, er varðar endurskipulagningu sýslumannsembætta. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur gagngerri endurskoðun á skipulagi sýslumannsembættanna verið hleypt af stokkunum sem miðar að því að sameina embætti landsins í eitt. Með bréfi þessu freistar ráðherra þess að vekja athygli sveitarstjórnarmanna um allt land á þessu mikilvæga verkefni til þess að tryggja að sveitarstjórnarmönnum auðnist að sjá þau miklu tækifæri sem felast almennt í starfrænni vegferð hins opinbera og þá sérstaklega fyrirhuguðum breytingum á landsbyggðinni. Til að eyða öllum vafa áréttar ráðherra að markmið þeirra aðgerða sem eru boðaðar eru ekki að færa núverandi starfsemi, sem er sinnt á 27 stöðum um land allt, undir eitt þak á höfuðborgarsvæðinu. Þvert á móti er markmiðið að efla núverandi starfsemi og styrkja þær starfsstöðvar sem eru að þjónusta almenning um land allt. Fram kemur að dómsmálaráðuneytið vill gjarnan eiga farsælt samráð við sveitarfélög landsins í þeirri vinnu sem bíður ráðuneytisins næstu misserin.