Málsnúmer 201702013Vakta málsnúmer
Á 815. fundi byggðaráðs var meðal annars bókað:
"Tekið fyrir erindi frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, dagsett þann 1. febrúar 2017, þar sem fram kemur að stjórn AFE mun leggja til 20% hækkun á framlögum sveitarfélaga á aðalfundi félagsins í apríl n.k. og mun hækkunin gilda afturvirkt frá áramótum. Framlag Dalvíkurbyggðar árið 2017 yrði þá kr. 3.065.440 en var árið 2016 kr. 2.553.920. Í fjárhagsáætlun 2017 er gert ráð fyrir kr. 2.581.462.
Byggðaráð hefur skilning á því að hækka þurfi framlög sveitarfélaga til AFE vegna uppsafnaðs misgengis launa- og neysluvísitölu undanfarinna ára. Hækkunin er nokkuð mikil eða sem nemur 20% og ekki gert ráð fyrir slíku í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og gildir það sjálfsagt um fleiri sveitarfélög. Finna þarf leið til þess að hækkanir á framlögum sveitarfélaga til AFE verði ákveðnar áður en fjárhagsáætlunarvinna sveitarfélaga fer fram að hausti. Byggðaráð vonast til þess að á aðalfundi AFE í apríl n.k. verði umræður um ofangreint og að jafnframt verði umræður um sameiningu atvinnuþróunarfélaganna og Eyþings. Byggðaráð fagnar því að stjórn Eyþings hafi ákveðið á fundi sínum þann 23. nóvember sl. að fela formanni og framkvæmdastjóra að ræða við forsvarsmenn RHA um að gera úttekt varðandi sameiningu atvinnuþróunarfélaganna og Eyþings. Ljóst er að með slíkri sameiningu og/eða með jafnvel enn víðari sameiningu á samstarfsverkefnum sveitarfélaga verði hægt að mynda miklu sterkara hagsmunaafl á Eyþingssvæðinu gagnvart ríkisvaldinu. Nýting fjármagns og mannauðs ætti að batna með sameiningu auk þess sem leiða má líkur til þess að öll stjórnsýsla og skjalavarsla verði agaðri og í samræmi við þau lög sem sveitarfélög þurfa að vinna eftir.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra umboð til að samþykkja ofangreinda tillögu um hækkun framlaga til AFE um 20% á aðalfundi félagsins.
Ef af verður þá er hækkun framlaga frá Dalvíkurbyggð áætluð um kr. 516.000."