Með fundarboði sveitarstjórnar fylgdi erindi frá SSNE, rafpóstur dagsettur þann 23. maí sl., þar sem fram kemur þá hefur ráðuneyti mennta- og barnamála verið að vinna að tillögu að útfærslu á starfsemi svæðisbundinna farsældarráða barna sem setja á á laggirnar samkvæmt 5. grein farsældarlaga. Vinna ráðuneytisins hafi farið víða og mörgum hugmyndum verið kastað á loft, en nú liggur fyrir tillaga frá ráðuneytinu sem felur í sér að unnið verði að því að stofnað verði farsældarráð í hverjum landshluta. Í tengslum við þetta hefur ráðuneytið lýst yfir vilja sínum til að gerður verði viðaukasamningur við Sóknaráætlanir landshluta um að landshlutasamtökin fái stuðning til þess að ráða verkefnastjóra í 2 ár til að útfæra starfsemi farsældarráða innan hvers landshluta.
Þetta er því nú orðið verkefni sem snýr einfaldlega að því að skapa samstarfsvettvang innan landshlutans í samræmi við 5. grein laganna þar sem kemur fram að sveitarfélögin eigi að skipa svæðisbundin farsældarráð sem eru vettvangur fyrir svæðisbundið samráð um farsæld barna. Það er mat SSNE að þetta verkefni eigi vel heima inni hjá SSNE, sem hefur auðvitað það megin hlutverk að vera samstarfsvettvangur sveitarfélaganna í landshlutanum.
Það á eftir að vinna drög að samningi við ráðuneytið þar sem verkefnið er útfært betur, en í ljósi þess að ráðuneytið hefur óskað eftir því að það liggi fyrir umboð frá sveitarfélögunum er hér með óskar eftir heimild Dalvíkurbyggðarr til að hafin verði vinna við að gera drög að samningi fyrir Norðurland eystra með starfsfólki ráðuneytisins. Þegar þeirri vinnu yrði lokið sendir SSNE drögin til skoðunar og ef það sátt við samningsdrögin þá yrði samningurinn undirritaður í framhaldinu.
Samningurinn myndi ekki fela í sér fjárhagslegar kvaðir fyrir sveitarfélögin heldur væri fyrst og fremst yfirlýsing um að þau vilji eiga með sér samstarf um útfærslu á Farsældarráði Norðurlands eystra og vinna sameiginlega áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða um farsæld barna til fjögurra ára í samræmi við farsældarlögin.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum að veita SSNE umboð Dalvikurbyggðar til að vinna drög að samningi fyrir Norðurland eystra um svæðisbundið farsældaráð barna með starfsfólki ráðuneytisins.