Lögð fram til kynningar stöðuskýrsla uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19 dags. 21.01.2022. Í skýrslunni kemur fram að í gegnum heimsfaraldurinn hafa sveitarfélög og starfsfólk í velferðarþjónustu sýnt mikla útsjónarsemi, sveigjanleika og fagleg vinnubrögð þegar upp hafa komið áskoranir sem lúta að sóttvörnum, smitum, mönnunarvanda og ýmsu fleiru. Sveitarfélögin reka sólarhringsþjónustur sem ekki er hægt að loka eða senda íbúa annað þótt starfsfólk og íbúar lendi í einangrun eða sóttkví. Í ljósi þessa ákvað sérstakt viðbragðs- og uppbyggingarteymi félagsmálaráðuneytisins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga að senda út spurningalista til allra sveitarfélaga til að fá betri mynd af þeim áskorunum sem faraldurinn er að valda. Víða er ástandið erfitt, þurft hefur að skerða þjónustu víða s.s. liðveisla, félagsstarf aldraðra, heimaþjónusta, dvöl í skammtímavistun o.fl. Lífsnauðsynleg þjónusta hefur verið varin til hins ýtrasta.