Tekinn fyrir rafpóstur frá innviðaráðuneytinu, dagsettur þann 18. ágúst sl., þar sem fram kemur að því miður náðist ekki að leggja fram þingsályktun á málefnasviði sveitarfélaga og frumvarp um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs á þingi í vor. Nú er stefnt að því að hægt verði að mæla fyrir hvoru tveggja ásamt þingsályktun í samgöngum á fyrstu dögum þingsins uppúr miðjum september.
Af einstökum aðgerðum innan aðgerðaáætlunar þingsályktunarinnar er hægt að nefna víðtæka endurskoðun á sveitarstjórnarlögum, áframhaldandi vinnu við endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga og þróunarverkefni á sviði þjónustu og lýðræðis, sbr. drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (hvítbók).
Endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs stuðlar að auknu gæðum jöfnunar, einfaldari útreikningum og skipulagi sjóðsins. Vakið hefur athygli að í fyrirliggjandi drögum að frumvarpi er gert ráð fyrir að sveitarfélög fullnýti útsvarsstofn sinn til að hljóta styrk úr sjóðnum.
Runnin er út frestur sveitarfélaga með undir 250 íbúum til að skila til ráðuneytisins áliti um getu þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum og tækifæri þeirra við sameiningu/ar. Unnið er að umsögnum ráðuneytisins um álitin og verður hvort tveggja kynnt fyrir íbúum í sveitarfélögunum á næstu mánuðum. Með því er stuðlað að því að íbúar hafi tækifæri til að móta sér upplýsta afstöðu til sameininga við önnur sveitarfélög.
Í lokin má geta þess að drög að húsnæðisstefnu stjórnvalda liggja frammi í opinni samráðsgátt stjórnvalda til 4. september.
Fulltrúar í sveitarstjórn eru hvattir til að kynna sér drögin og eiga frumkvæðið að því að senda inn umsögn telji sveitarstjórnarfulltrúar/sveitarstjórnin tilefni til þess.