Í tengslum við Fiskidaginn mikla kom fram í fjölmiðlum umfjöllun um hversu fáar bílahleðslustöðvar eru í sveitarfélaginu. Fjórar bílahleðslustöðvar eru á Dalvík, þar af tvær hraðhleðslustöðvar. Ein af stöðvunum fjórum er við Ráðhús Dalvíkur fyrir bifreiðar í eigu Dalvíkurbyggðar sem starfsmenn sveitarfélagsins nota starfa sinna vegna. Tvær af þessum fjórum eru við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík sem opnaðar hafa verið fyrir almenning fyrir notendur með aðgang frá Ísorku.
Í fjölmiðlum kom einnig fram að Orka náttúrunnar í samstarfi við Dalvíkurbyggð brást við ákalli um fleiri hleðslustöðvar og sendi tvær stöðvar norður til bráðabirgða vegna Fiskidagsins mikla.
Samkvæmt meðfylgjandi fundargögnum byggðaráðs kemur fram að sveitarstjóri hefur verið í samskiptum m.a. við forsvarsmenn Olís og Ísorku í tæpt ár varðandi uppsetningu á hraðhleðslustöðvum í Dalvíkurbyggð.