Undanfarin fjögur ár hefur Síldarvinnslan á Neskaupsstað rekið sjávarútvegsskóla yfir sumartímann. Skólinn er ætlaður 14 ára nemendum sem eru að byrja í 9. bekk um haustið. Markmiðið með skólanum er að auka áhuga og efla þekkingu um sjávarútveg. Að auki, benda nemendum á þá menntunarmöguleika tengdum sjávarútvegi sem þeim bjóðast í framhalds- og háskólum. Sjávarútvegsskólinn er jafnframt hugsaður sem farvegur til að benda krökkum á þá framtíðarmöguleika sem þau eiga í sinni heimabyggð.
Síðastliðið sumar leitaði Síldarvinnslan til Háskólans á Akureyri og bað um að Háskólinn tæki við sem umsjónaraðili sjávarútvegsskólans. Síldarvinnslan hélt þó áfram ásamt Háskólanum að leiða verkefnið. Sjávarútvegsmiðstöðin við Háskólann á Akureyri hafði umsjón með verkefninu fyrir hönd Háskólans. Hlutverk umsjónaraðila var að sjá um skipulagningu, samskipti við sveitarfélög og samstarfs-fyrirtæki, uppfæra og bæta kennsluefni svo og kennsla.
Fyrirhugað er að styðjast við fyrirkomulag sjávarútvegsskólans síðustu ár og halda svipuðu sniði fyrir fyrirhugaðan Sjávarútvegsskóla Norðurlands. Þannig er gert ráð fyrir að skólinn verði í eina viku á hverjum kennslustað, ætlaður 14 ára nemendum og skipulagður sem hluti af vinnuskóla sveitarfélaganna. Umsjónaraðili skólans vill þannig styðjast við þá reynslu og þekkingu sem hefur byggst upp með þessu verkefni við rekstur skólans á bæði Norðurlandi og Austurlandi sumarið 2017. Kennslustaðir á Norðurlandi eru Akureyri, Húsavík og Dalvík. Kennslustaðir á Austurlandi verða áfram Höfn í Hornafirði, Fáskrúðsfjörður, Eskifjörður, Neskaupstaður, Seyðisfjörður og Vopnafjörður. Fyrirhugað er að kennsla fari fram á tímabilinu 12. júní til 21. júlí. Þetta verkefni skapar fjögur sumarstörf fyrir nemendur í sjávarútvegsfræði við HA sem sjá munu um kennsluna, tvö á Norðurlandi og tvö á Austurlandi. Það fyrirkomulag gekk mjög vel sumarið 2016 og verður því haldið áfram. Framtíðarsýn okkar er síðan að koma þessum skóla á stoðir um allt land en skipulag og reynsla er þegar fyrir hendi.
Óskað er eftir styrk að upphæð kr. 250.000kr. frá Dalvíkurhöfn til greiðslu hluta kostnaðar vegna Sjávarútvegsskólans.
Veitu- og hafnaráð hefur vilja til þess að bregðast jákvætt við erindinu en það hefur ekki fjárheimild til að veita umbeðinn styrk og samþykkir samhljóða að vísa því til byggðarráðs til endanlegrar afgreiðslu.