Á 740. fundi byggðaráðs þann 9. júlí 2015 var eftirfarandi bókað:
"Með vísan til undanþágubeiðnar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks sem dagsett er 3. maí 2015 og send til félagsmálaráðherra þá var tilkynnt úrsögn Dalvíkurbyggðar úr Rótum bs. þann 30.júní s.l. með bréfi sem er meðfylgjandi fundarboði byggðaráðs. Úrsögn þessi var gerð með eftirfarandi fyrirvörum: Að ráðherra samþykki undanþágubeiðnina. Að félagsmálaráð Dalvíkurbyggðar hafi fengið ráðrúm til að fjalla um málið og veiti umsögn. Að sveitarstjórn/byggðaráð Dalvíkurbyggðar staðfesti úrsögn úr Rótum bs. Tilkynning þessi er gerð með 6 mánaða fyrirvara eins og fram kemur í 12. gr samþykkta Róta bs. og miðast því úrsögn við áramótin 2015/2016. Með fundarboði byggðaráðs fylgdi einnig afrit af umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga til Velferðarráðuneytisins um þrjú erindi sveitarfélaga sem varða undanþágur frá lágmarksíbúafjölda þjónustusvæða í málefnum fatlaðs fólks. Umrædd sveitarfélög eru: Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð, Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum tilkynningu um úrsögn úr Rótum bs. "
Með fundarboði byggðaráðs fylgdi erindi frá Velferðarráðuneytinu, bréf dagsett þann 22. september 2015, þar sem fram kemur ráðuneytið fellst á þau rök umsækjanda, Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar, að landfræðilegar aðstæður geti hamlað samstarfi til vesturs og tekur undir þau sjónarmið að sveitarfélögin séu líkleg til þess að geta leyst verkefnið saman með góðum árangri, enda samgöngur greiðar milli sveitarfélaganna. Í ljósi þess fellst ráðherra á að veita sveitarfélögunum sameiginlega undanþágu frá lágmarksíbúatölu þjónustusvæðis. Undanþágan er tímabundin í eitt ár frá og með 1. janúar 2016. Ráðuneytið leggur áherslu á að undanþágutíminn verði nýttur til þess að kanna gaumgæfilega möguleika á samstarfi til austurs, það er til Eyjafjarðarsvæðisins.