Á 38. hafnasambandsþingi sem haldið var í Vestmannaeyjum dagana 20. og 21. september 2012 var stjórn Hafnasambands Íslands falið að láta gera úttekt á efnahagslegum áhrifum íslenskra hafna og vægi þeirra í íslensku atvinnulífi. Starfsmaður hafnasambandsins hefur á seinustu mánuðum unnið í úttektinni sem var einnig MA-ritgerð hans í stjórnun og stefnumótun.
Í úttektinni var stuðst við ársreikninga hafnasjóða og sveitarfélaga fyrir árið 2012 sem og gögn frá Hagstofu Íslands og Íslenska sjávarklasanum. Að auki var notast við SVÓT greiningu til að greina styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri íslenskra hafna.
Niðurstöðurnar sýna okkur að beint framlag íslenskra hafna var um 0,3% af landsframleiðslu en aftur á móti var óbeina framlag hafnanna mun meira eða rúmlega 28%. Mikilvægi íslenskra hafna fyrir íslenskt samfélag var og er því óumdeilt þó svo að deila megi um mikilvægi hverrar hafnar fyrir sig.
Rétt er að það komi fram að um Hafnasjóð Dalvíkurbyggðar er fjallað á blaðsíðu 56 og 57 í skýrslunni.
Afraksturinn má nálgast í heild sinni á heimasíðu Hafnasambands Íslands:
http://hafnasamband.is/2014/06/24/efnahagsleg-ahrif-islenskra-hafna/