Tekið fyrir erindi frá þrýstihópi um gervigrasvöll á Dalvík sumarið 2013, bréf dagsett þann 9. september 2012, þar sem fram kemur að stofnaður hefur verið hópur fólks til að knýja á um úrbætur í vallarmálum fyrir fótboltaiðkendur í Dalvíkurbyggð. Markmið hópsins er að vinna að því öllum árum að settur verði gervigrasvöllur á æfingarsvæðið á Dalvík og að hann verði kominn í gagnið sumarið 2013. Fer þrýstihópurinn fram á að Dalvíkurbyggð setji gervigrasvöll á fjárhags- og framkvæmdaráætlun ársins 2013.
Ofangreind erindi var tekið fyrir á fundi íþrótta- og æskulýðsráðs þann 11. september s.l. og eftirfarandi var bókað:
"Íþrótta- og æskulýðsráð er jákvætt fyrir uppbyggingu gervigrasvallar enda komi slík framkvæmd ekki einungis knattspyrnuiðkendum til góða heldur öllum íbúum sveitarfélagsins þar sem tækifæri gefst að stunda á upphituðum velli. Hins vegar minnir ráðið á að U.M.F.S. er eigandi svæðisins og horfir ráðið því til að koma með styrk til félagsins sem hlutfall af kostnaði og beri félagið ábyrgð á að fjármagna verkefnið að fullu og rekstrarkostnaði í framhaldinu.
Íþrótta- og æskulýðsráð óskar jafnframt eftir að bæjarráð boði ráðið og þrýstihópinn á fund sinn þar sem þessi hugmynd sem og aðrar verða ræddar. Fyrir þann fund óskar ráðið eftir að þrýstihópurinn vinni grófa kostnaðaráætlun og skoði möguleikann á styrkjum í samráði við íþrótta- og æskulýðsfulltrúa."