Samkvæmt frétt á vef Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 10. mars sl. þá kemur fram að gagngerar breytingar verða gerðar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samkvæmt tillögum sem birtar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda. Breytingarnar miða að því að styrkja jöfnunarhlutverk sjóðsins og mæta miklum breytingum sem hafa orðið í samfélaginu.Í samráðsgátt eru hvort tveggja til umsagnar drög að skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshópsins. Frestur til að skila umsögn er til og með mánudags 27. mars 2023.
Í skýrslu sinni leggur starfshópurinn til að taka upp nýtt líkan sem leysi núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög af hólmi. Um yrði að ræða gagnsætt líkan sem sameinar fyrrgreind framlög í eitt framlag.