Tekið fyrir erindi frá Velferðarráðuneytinu dags. 8. maí 2017 þar sem Félags- og jafnréttismálaráðherra beinir því til sveitarfélaga að taka tillit til leiðbeinandi reglna Velferðarráðuneytisins um sérstakan húsnæðisstuðning um að meta skuli þörf fyrir slíkan stuðning á grundvelli framfærslubyrði og félagslegra aðstæðna í stað þess að byggja einungis á hlutlægum tekju- og eignaviðmiðum.
Nú hefur komið í ljós að framkvæmd sumra sveitarfélaga við ákvörðun sérstaks húsnæðisstuðnings er með þeim hætti að sérstakar húsnæðisbætur lífeyrisþega almannatrygginga eru lægri en áður og lækka jafnvel umtalsvert samanborið við þann stuðning sem sveitarfélagið veitti þeim áður með sérstökum húsaleigubótum.
Velferðarráðuneytið bendir á að samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þarf ákvörðun um sérstakan húsnæðisstuðing að byggjast á heildarmati á aðstæðum umsækjanda, en ekki einungis á hlutlægum tekju- og eignaviðmiðum. Meta þarf hvort um sé að ræða sérstaklega þunga framfærslubyrði eða aðrar félagslegar aðstæður sem leitt geta til þess að þörf fyrir stuðning sé meiri eða minni en hlutlæg viðmið gefa til kynna. Ef þessir þættir eru ekki metnir verður vandséð að sveitarfélag hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni við töku ákvörðunar um sérstakan húsnæðisstuðning. Félags- og jafnréttismálaráðherra beinir því þess vegna til sveitarfélaganna að tekið verði til leiðbeinandi reglna velferðarráðuneytisins hvað þetta varðar til þess að þessum markmiðum um heildarmat verði náð.