Tekinn fyrir rafpóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsettur þann 19. apríl 2016, þar sem kynnt er samkomulag um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.
Samkomulagið er hið fyrsta sem gert er á grundvelli nýju laganna og gildir til eins árs. Ríki og sveitarfélög eru sammála um eftirfarandi afkomumarkmið sem byggja á grunngildum um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi:
1. Heildarafkoma hins opinbera (A-hluta) verði jákvæð árin 2017-2021.
2. Heildarafkoma A-hluta sveitarfélaga verði í jafnvægi og stuðli þannig að efnahagslegum stöðugleika. Heildarafkoma B-hluta sveitarfélaga verði jákvæð, sbr. fyrirliggjandi markmið.
3. Rekstur sveitarfélaga verði sjálfbær í þeim skilningi að skuldir þeirra sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hækki ekki og stefnt verði að því að þær fari heldur lækkandi.
4. Rekstri sveitarfélaga verði haldið innan varúðarmarka í þeim skilningi að tekjuáætlun sé varfærin, útgjaldaáætlun sé raunsæ og að sveitarfélög gangist ekki undir skuldbindingar sem raski forsendum í rekstri og afkomu til lengri tíma.