Kvartettinn Ómar er dottinn í jólagírinn og efnir því til veglegra jólatónleika í Menningarhúsinu Bergi.
Á efnisskránni eru lög úr ýmsum áttum, íslensk og erlend, sem eiga það sammerkt að efla með okkur hinn sanna jólaanda. Hér er ekki verið að finna upp hjólið – öll ættu að kannast við lungann úr prógramminu. Lög eins og Hin fyrstu jól, Jólin alls staðar og Þorláksmessukvöld eiga sinn fasta sess í hjörtum landsmanna og fá hér að hljóma í fallegum raddsetningum, ásamt ýmsu öðru góðmeti. Áhersla er lögð á að skapa afslappað og notalegt andrúmsloft og að vekja kyrrð og gleði í hugum áheyrenda.
Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00, miðaverð er 3.500 og aðgöngumiðar seldir við inngang, posi á staðnum.