Tekið fyrir erindi frá Samtökum ferðaþjónustunnar dagsett þann 13. október 2020, áfram sent frá SSNE samkvæmt rafósti dagsettum þann 13. október 2020, þar sem fram kemur að heimsfaraldur Covid-19 og sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa haft gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna. Atvinnurekendur í ferðaþjónustu sem reka t.d. hótel, hópferðafyrirtæki og afþreyingu þurfa því nauðsynlega að fá niðurfellingu fasteignagjalda. Ef ekki niðurfellingu þá frestun, ef ekki frestun þá lengingu í lögveði fasteignaskatta vegna ákveðinna ára. Fram kemur að sveitarfélögin þurfi því að krefjast lagabreytinga og heimilda til að fella niður fasteignaskatt og/eða fresta greiðslum.
Byggðaráð beinir Samtökum ferðaþjónustunnar og fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og erindi þeirra því til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Um leið vill byggðaráð árétta að staða sveitarfélagsins eins og annarra sveitarfélaga er þröng og hugmyndir um breytingar á greiðslu fasteignagjalda verði ekki ræddar án aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tillit tekið til áhrifa á rekstur þeirra.
Ljóst er að sveitarfélög hvorki geta né mega afsala sér lögboðnum tekjustofnum, enda yrði þá að mæta því með öðrum tekjum sem ekki blasa við nú.