Laxeldi í Eyjafirði, erindi frá Bessa Skírnissyni og frá Halldóri Áskelssyni

Málsnúmer 202005036

Vakta málsnúmer

Byggðaráð - 943. fundur - 07.05.2020

Tekin fyrir innsend bréf til sveitarstjórnar frá Bessa Skírnissyni dags. 26. apríl og frá Halldóri Áskelssyni dags. 27. apríl 2020. Bæði erindin varða friðun Eyjafjarðar fyrir laxeldi.
Erindin eru lögð fram til kynningar.

Byggðaráð óskar eftir því að SSNE haldi áfram þeirri vinnu sem Dalvíkurbyggð og AFE hófu 2018 um samtal í Eyjafirði um laxeldismál.

Byggðaráð - 945. fundur - 28.05.2020

Með fundarboði fylgdu tvö innsend erindi, mótmæli við laxeldi í sjókvíum í Eyjafirði.
Annars vegar frá Halldóri Áskelssyni dagsett 18. maí 2020, undirskriftir 20 hagsmunaaðila í Eyjafirði sem krefjast þess að Eyjafjörður verði friðaður fyrir fiskeldi í sjókvíum.

Hins vegar frá landeigendum við austanverðan Eyjafjörð og í Fnjóskadal, áskorun um að bæjar- og sveitarstjórnir við Eyjafjörð og nágrenni hafni öllum hugmyndum um sjókvíaeldi á laxi í firðinum.
Lagt fram til kynningar.

Byggðaráð ítrekar fyrri bókun sína frá 7. maí þar sem ráðið óskar eftir því að SSNE haldi áfram þeirri vinnu sem Dalvíkurbyggð og AFE hófu 2018 um samtal í Eyjafirði um laxeldismál.

Byggðaráð - 947. fundur - 11.06.2020

Tekið fyrir erindi frá SUNN, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi dagsett 2. júní 2020 þar sem samtökin fagna samþykkt meirihluta bæjarstjórnar á Akureyri og sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps um að leggja til við sjávarútvegsráðherra að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi.
Samtökin taka undir þessa tillögu og hvetja önnur sveitarfélög á svæðinu til að sameinast um slíka afstöðu.

Einnig lagt fram til kynningar svar Hafrannsóknarstofnunar við fyrirspurn SSNE um burðarþolsmælingu og áhættumat í Eyjafirði sem og bókanir annarra sveitarstjórna í Eyjafirði um laxeldismál.

Þá lá fyrir fundinum fundarboð frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem boðað er til opins fundar, í Hofi á Akureyri, um fiskeldi á Norðurlandi fimmtudaginn 11. júní 2020 kl. 20:00 í Hofi. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stýrir fundinum, en þar flytja framsögu fulltrúi veiðiréttarhafa og fulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Lagt fram til kynningar.

Byggðaráð - 949. fundur - 09.07.2020

Tekið fyrir erindi frá 9. júní 2020 frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem óskað er eftir umsögn eigi síðar en 9. júlí n.k. varðandi mögulegt fiskeldi í Eyjafirði. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 getur ráðherra að fenginni umsögn Fiskistofu, Matvælastofnunar, Hafrannsóknarstofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar takmarkað eða bannað fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart fiskeldi. Nú er í gildi auglýsing nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er lýst óheimilt á tilteknum svæðum og er Eyjafjörður ekki meðal þeirra svæða sem þar eru tilgreind. Hér með er leitað umsagnar Dalvíkurbyggðar um hvort rétt sé að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíkum í Eyjafirði innan línu sem dregin verði frá Siglunesi að Bjarnarfjalli.

Til umfjöllunar frá sveitarstjóra drög að umsögn fyrir hönd Dalvíkurbyggðar.


Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum fyrirliggjandi tillögu að umsögn Dalvíkurbyggðar.