Mað rafpósti, sem dagsettur er 26. 04.2018,frá Samgöngustofu er verið að fjalla um neðangreint.
"Öryggi í höfnum.
Um öryggismál hafna gilda hafnalög nr. 61/2003 og reglugerð 326/2004 um hafnamál en VI kafli reglugerðarinnar fjallar sérstaklega um slysavarnir í höfnum.
Í 7. gr. laganna segir m.a.: "Eigandi hafnar er ábyrgur fyrir því að mannvirki, búnaður og rekstur hafnarinnar sé ætíð í samræmi við gildandi lög og reglugerðir."
Í 19. gr. reglugerðarinanr segir m.a.: "Hafnarstjórnir skulu sjá til þess að öryggisbúnaði í höfnum sé ætíð vel við haldið og hann nothæfur."
Ábyrgð eiganda og rekstraraðila á öryggismálum hafnar ætti því að vera ljós, þó að Samgöngustofa hafi eftirlit með framkvæmdinni.
Eftirliti með öryggismálum hafna hefur verið þannig háttað undanfarin ár að eftirlitsmenn Siglingastofnunar tóku út öryggismál í höfnum, samhliða öðru eftirlit.
Nú hefur Samgöngustofa tekið yfir það hlutverk sem Siglingastofnun hafði áður þ.e. eftirlit með öryggismálum hafna. Um skyldur Samgöngustofu má m.a. lesa í 5. gr. laga um Samgöngustofu ... nr. 119/2013 og í 4. og 6. gr. Hafnalaga nr. 61/2003.
Á undanförnum árum hafa eftirlitsmál tekið nokkrum breytingum í þá átt að sífellt meira er stuðst við skjalfest innra eftirlit rekstraraðila, sem síðan miðlar upplýsingum til stjórnsýslustofnana. Samgöngustofa hefur áhuga á að fara í þá átt með eftirlit með öryggismálum hafna. Það hlýtur að vera akkur allra sem að málinu koma að ástand öryggismála sé sem best.
Samgöngustofa er nú að setja af stað verkefnið um eigið eftirlit með öryggi hafna og óskar samstarfs við hafnir víða um landið til að verkefnið takist sem best.
Jafnframt verður farið í átak um þjálfun starfsmanna í samræmi við 31. gr. Hafnareglugerðar.
Framkvæmdir í höfnum.
Samgöngustofa vill hér minna á ákvæði í 6. gr. Hafnarlaga nr. 61/2003 þar sem segir m.a.:
"Öll mannvirkjagerð í höfnum skal vera í samræmi við gildandi skipulag fyrir viðkomandi sveitarfélag. Samgöngustofa skal fylgjast með að við hönnun og byggingu hafnarmannvirkja sé fylgt að minnsta kosti lágmarkskröfum um styrkleika mannvirkja og öryggi notenda hafnanna. Hafnir skulu tilkynna Samgöngustofu um fyrirhugaðar framkvæmdir og leggja fyrir stofnunina gögn um gerð mannvirkjanna til samþykktar áður en framkvæmdir eru hafnar. Samgöngustofu er heimilt að veita einstökum höfnum undanþágu frá þessu byggingareftirliti, enda geti þær sýnt fram á að starfsmenn þeirra hafi yfir nægri tækniþekkingu að ráða og fyrir hendi sé vel skilgreint innra eftirlit."
Uppsetning hafnarvita, innsiglingarljósa og annarra leiðarmerkja.
Í lögum um vitamál nr. 132/1999 er kveðið á um hlutverk Samgöngustofu varðandi leiðarmerki. Þar segir m.a. í 2. gr. að Samgöngustofa skuli
"... hafa eftirlit af hálfu ríkisins með uppsetningu og rekstri leiðarmerkja sem einstök sveitarfélög eða einstaklingar setja upp."
Í 3. gr. laganna segir m.a. að leiðarmerki megi
"... ekki taka í notkun fyrr en úttekt hefur farið fram af hálfu Samgöngustofu ..."
Vill Samgöngustofa minna hafnastjóra á að gæta vel að ofangreindu og hika ekki við að hafa samband, sé eitthvað óljóst."