Lagt var fram bréf frá Íbúðalánasjóði dags. 28.04.2017 þar sem kynnt er að opið væri fyrir umsóknir um stofnframlög vegna fyrri úthlutunar ársins 2017. Íbúðalánasjóður hefur umsjón með framkvæmd vegna stofnframlaga ríkisins. Um úthlutun stofnframlaga fer samkvæmt lögum um almennar íbúðir nr. 52/2016 og reglugerð um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir nr. 555/2016.
Í auglýsingunni segir m.a. að eingöngu verði úthlutað til nýbygginga. Þessi takmörkun er gerð í ljósi þess að nýbygging fellur mun betur að markmiði laganna, sem er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 6. og 7. mgr. 10. gr. laganna með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Í 2. málsl. 3. gr. reglugerðar um stofnframlög segir í þessu samhengi, að til þess að ná þessu markmiði skuli sérstök áhersla lögð á nýbyggingar og að fjölga leiguíbúðum sem uppfylla skilyrði laga um almennar íbúðir og reglugerðarinnar. Í tengslum við þetta vill Íbúðalánasjóður sérstaklega koma því á framfæri, að kaup úr framkvæmd koma þó einnig til greina til að hljóta úthlutun stofnframlaga.