Stækkun leikskólans Krílakots

Stækkun leikskólans Krílakots

Föstudaginn 5. ágúst síðastliðinn var viðbygging við leikskólann Krílakot á Dalvík formlega vígð af sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar og leikskólabörnum úr sveitarfélaginu á vináttukeðju Fiskidagsins mikla. Nokkrum dögum síðar, eða þann 11. ágúst, var húsnæðið svo tekið í notkun þegar leikskólinn opnaði aftur eftir sumarfrí. Með þessari stækkun var leikskólahúsnæði að Hólavegi á Dalvík lagt af og í stað tveggja leikskóla er nú einn leikskóli á Dalvík sem getur tekið á móti allt að 110 börnum á fimm deildum. 

Leikskólinn var stækkaður um 470 m2 og er heildarstærð húsnæðisins í dag 931,6 m2. Hönnuður hússins var AVH og aðalverktaki hússins Tréverk ehf.

Auk þess að stækka leikskólann var eldra húsnæðið tekið í gegn og því breytt og aðlagað að meiri nemendafjölda og fleira starfsfólki. Öll aðstaða fyrir nemendur og starfsmenn er því orðin til fyrirmyndar.