Kátakot lokar

Kátakot lokar

Það var 16. september árið 1993 sem leikskólastarfsemi hófst í húsnæðinu við Hólaveg 1 og fékk leikskólinn nafnið Fagrihvammur. Það voru þær Anna Jóna Guðmundsdóttir og Birna Blöndal sem stýrðu starfseminni og seinna tók Helga Snorradóttir við eða allt til ársins 2010. Það ár tók Dalvíkurbyggð við rekstrinum og fékk leikskólinn þá nafnið Kátakot.

Dagurinn í dag var því sögulegur þegar leikskólanum Kátakoti var lokað og starfsemi hætt. Í ágúst munu börn og starfsfólk flytja sig í Krílakot þar sem byggðar hafa verið fjórar deildar og forstofa við húsnæðið auk þess að starfsmannaaðstaða hefur verið bætt og nýtt eldhús er í vinnslu. Í Krílakoti verða í ágúst um 100 börn og 27 starfsmenn.

Það var Sigríður Dóra Friðjónsdóttir sem skellti í lás í Kátakoti eftir 18 ára samfellt starf í leikskólanum, fyrst í Fagrahvammi hjá Helgu Snorradóttur og svo í Kátakoti hjá Dalvíkurbyggð, en hún ætlar að mæta galvösk í Krílakot að loknu sumarleyfi.

Bestu kveðjur frá öllum í Kátakoti og þakkir fyrir samveruna og samstarfið