Innilega til hamingju með daginn, dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur á Íslandi 6. febrúar ár hvert og er þetta 14. sinn sem hann er haldinn hátíðlegur á Íslandi.
Markmiðið með Degi leikskólans er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og um leið beina athygli samfélagsins að því faglega og metnaðarfulla starfi sem innt er af hendi í leikskólum landsins á degi hverjum.
Saga leikskóla á Íslandi spannar 97 ár en sagan á Dalvík hófst 1961 þegar var komið á fót barnaleikvelli.
Barnavinafélagið Sumargjöf
Í ár eru 97 ár síðan Barnavinafélagið Sumargjöf var stofnað. Íslenskar konur stofnuðu félagið árið 1924 og byggði og rak félagið fyrstu leikskóla landsins.
Í stofnskrá Sumargjafar segir m.a: “Tilgangur félagsins sé að stuðla að andlegri og líkamlegri heilbrigði og þroska barna í Reykjavík og vernda þau fyrir óhollum áhrifum”.
Fyrstu þrjú sumrin var rekstur dagheimilis í gamla Kennaraskólanum.
1931 hófst rekstur fyrsta dagheimilisins sem bar nafnið Grænaborg.
Árið 1945 voru rekin 3 dagheimili af Barnavinafélaginu Sumargjöf og voru þau orðin 35 talsins árið 1978.
Uppeldisskóli Sumargjafar var stofnaður árið 1946. Árið 1957 var nafni skólans breytt í Fóstruskóla Sumargjafar.
Tilgangur skólans var að mennta starfsfólk fyrir barnaheimilin.
Skólinn varð ríkisskóli 1973, og hlaut þá nafnið Fósturskóli Íslands. Hann var sameinaður Kennaraháskóla Íslands árið 1998.
Í ársbyrjun 1978 yfirtók Reykjavíkurborg rekstur allra barnaheimila borgarinnar. Var þar raunar verið að viðurkenna staðreyndir; það að Sumargjöf sæi um reksturinn byggðist eingöngu á trausti og gamalli hefð.
Á síðustu árum hefur Sumargjöf haslað sér völl sem stuðningsaðili við málefni, sem tengjast velferð barna.
Félagið á náið samstarf við hliðstæð samtök, eins og Bernskuna, og styður einnig Barnaheill.
Dalvík
Upphaf leikskólastarfs á Dalvík má rekja allt aftur til ársins 1961 þegar Kvenfélagið Vaka kom á fót barnaleikvelli og bjóða uppá barnagæslu á sumrin. Auk Vöku og bæjarfélagsins kom Lionsklúbbur Dalvíkur að þeim framkvæmdum með fjárframlögum. Frá árinu 1975 var starfræktur leikskóli í Gamla skólanum og síðar í Mímisbrunni (þá í eigu skátafélagsins). Leikskólinn Krílakot tók til starfa í september 1980 í hluta af núverandi húsnæði, þar sem nú er inngangur og kaffistofa starfsfólks, skrifstofa leikskólastjóra, sérkennsluherbergi, fundaraðstaða og undirbúningsherbergi. Þar sem hvergi hefur fundist í gögnum neinn víxludagur leikskólans eða hvenær hann var formlega tekinn í notkun í núverandi húsnæði ákvað starfsfólk leikskólans haustið 1995 að afmæli leikskólans skyldi verða 9. september. Árið 1987 var byggt við húsnæðið, sá partur sem nú hefur að geyma sal, eldhús, vörumóttöku, ræstingu, þvottahús og loft þar sem í dag er aðstaða fyrir undirbúning starfsfólks. Árið 2007 kom þriðja viðbyggingin en þá var byggð ein deild vestan við húsið ásamt bættri starfsmannaaðstöðu og stórri forstofu. Leiksvæðið var stækkað upp í 2.960 fm. eftir að við bættist trjálundur og lóð Móafells. Árið 2016 var ár stórframkvæmda í sögu Krílakots og í raun sögu leikskóla í Dalvíkurbyggð. Byggt var við Krílakot til austurs, þá fjórar deildar og stór forstofa. Einnig voru gerðar miklar breytingar á eldra húsnæðinu, eldhús stækkað, skrifstofa skólastjóra varð að vörumóttöku og deildunum breytt í starfsmannaaðstöðu, fundarherbergi, sérkennslu- og undirbúningsherbergi. Einnig var bílastæði stækkað og gerðar endurbætur á lóðinni og steypt stétt í kringum skólann. Vígsla fór fram á Vináttukeðjunni þann 5. Ágúst 2016 þar sem ný kjörinn forseti Íslands og kona hans voru viðstödd. Sama ár lokaði leikskólinn Kátakot sem starfræktur var í Hólavegi 1. Þar voru starfræktar tvær deildar þar sem elstu tveir árgangar skólans höfðu stundað nám sitt frá árinu 2010 eða frá því Dalvíkurbyggð tók við rekstri skólans. Áður en Dalvíkurbyggð tók við rekstrinum var skólinn einkarekinn og hét Fagrihvammur.
Dagur leikskólans
Þann 6. febrúar verður dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í 14. sinn, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.
Í tilefni dagsins var Orðsporið veitt í áttunda sinn. Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem veitt eru þeim sem þykja hafa skarað fram úr í því að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, upplýsti á morgunverðarfundi RannUng 5. febrúar 2021 að handhafi Orðsporsins 2021 væri leikskólastigið. Í ávarpi sínu sagði hún meðal annars:
Leikskólastigið hefur staðið í ströngu undanfarið ár og mikið hefur mætt á kennurum, stjórnendum og öllu starfsfólki leikskólanna við að halda leikskólastarfi gangandi. Unnið hefur verið algjört þrekvirki á leikskólastiginu og fyrir það ber að þakka. Ég geri mér grein fyrir því að þetta hefur verið á tímum mjög erfitt. Þess vegna vil ég þakka öllum þeim sem starfa á leikskólastiginu fyrir þeirra vinnu. Þið eigið svo sannarlega skilið Orðsporið 2021.
Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.
Látum Dag leikskólans verða okkur hvatningu til að kynna okkur það mikilvæga starf sem þar fer fram.