Komið sæl
Á fimmtudaginn hófst söguskjóðuverkefnið að nýju og má segja að við séum að rifna úr stolti enda ekki sjálfgefið að foreldrar komi í frítíma sínum í skóla barna sinna í verkefnavinnu. Verkefnið hefur vakið athygli víða fyrir einmitt þátttöku foreldra og svo auðvitað söguskjóðurnar sem eru mjög svo fallegar og gefa möguleika til náms í gegnum leikinn og hafa að geyma bækur og flott verkefni til t.d. málörvunar.
Foreldrar byrjuðu á að skipta sér í 4 hópa og völdu bækur til að vinna með en það getur verið þrautinni þyngri þegar svo margar spennandi bækur eru í boði. Það tókst nú samt á endanum að sammælast um bók og þá hófst vinnan við að ákveða hver verður aðalpersóna söguskjóðanna, hvaða verkefni á að útbúa og hvernig leikefni og búninga skal útbúa til að gera pokana skemmtilega fyrir börn og foreldra þeirra. Á meðan foreldrarnir voru í þessari spennandi vinnu voru börnin með starfsfólki skólans í annarri vinnu, teikna, byggja úr kubbum, heimilisleik og hreyfileikjum eða það sem þeim datt í hug.
Í dag, laugardag, hittist hópurinn klukkan 10:00 - 13:00 og var gaman að sjá brennandi áhuga foreldra og starfsfólks. Börnin fóru í útiveru með starfsfólki til að byrja með og þá fór allt á fullt innan dyra og var greinilegt að foreldrar höfðu unnið undirbúningsvinnu heima við að skipuleggja verkefnið sem er frábært. Sumir voru búnir að finna hugmyndir á netinu og aðrir áttu sitthvað heima sem kveikti nýjar hugmyndir að skemmtilegum verkefnum. Einhverjir fóru í fjöruferð og söfnuðu efnivið á borð við steina og skeljar sem henta einni skjóðunni vel. Það skemmtilega við gerð söguskjóða er að verkefnum er skipt niður eftir áhugasviðum og hæfni þátttakenda þ.e. þeir sjálfir velja sér verkefni við hæfi. Söguskjóðurnar voru saumaðar og vinna við að merkja þær og skreyta er hafin. Litlar skjóður sem munu innihalda skemmtileg verkefni voru líka saumaðar og verður gaman að sjá hvaða verkefni verða fyrir valinu en sú vinna er í fullum gangi t.d. er verið að útbúa spil, finna vísur og söngva, finna fróðleik um persónurnar í bókinni og fleira og fleira.
Vinna við söguskjóðurnar gefur þátttakendum, foreldrum og starfsfólki, svo margt og má segja að þessar stundir séu ómetanlegar. Verkefnið er fjölmenningarlegt og er leitast við að fá þátttakendur frá mörgum þjóðum svo skjóðurnar verði fjölbreyttar og jafnvel með áhrifum frá þeim löndum sem þátttakendur koma frá. Þátttakendur eiga það sameiginlegt að búa á Íslandi og eiga börn sem eru í leik eða grunnskóla á Dalvík eða starfa við skólana. Þátttakendur koma frá mörgum löndum og tala ólík tungumál, sumir tvö tungumál en sumir fjögur eða fleiri, já svo rík erum við. Þátttakendur eiga það samt sameiginlegt að þurfa að nýta sér íslenskuna í daglegu lífi í samskiptum t.d. við skólann og starf sitt en eru komnir misjafnlega langt í að tala málið og skilja það. Þátttakendur kynnast betur, læra að þekkja hæfileika hvors annars og geta lært af þekkingu og færni hinna en foreldrar hafa mismunandi styrkleika, sumir er snillingar í að sauma, aðrir mála, sumir eru mikið textafólk, einhverjir fá eindalausar hugmyndir og svo framvegis. Starfsfólkið notar íslenskuna í samskiptunum en grípur stundum til enskunnar til útskýringa. Þátttakendur skilja mismunandi mikið en þá hjálpa þeir hverjum öðrum og útskýra það sem fram fer á öðrum tungumálum sem hinir skilja. Markmiðið er að þátttakendur sjái að skólinn er þeirra og að þeir eru velkomnir, þeir hafa leyfi til að nýta þann efnivið og búnað sem þarf til að útbúa pokana og er kennt hvar hlutirnir eru og svo hjálpast allir að við frágang. Þannig læra allir að þekkja skólann og vita hvað hann hefur að geyma. Veitingar eru í boði fyrir alla en það er varla að tími gefist til að setjast niður því spennan yfir verkefninu er svo mikil og erfitt að slíta sig frá.
Hér má sjá myndir frá þessari flottu vinnu
Það er ekki sjálfgefið að foreldrar gefi vinnu sína í verkefni sem þetta en það er ómetanlegt fyrir skólana. Auk þess að efla samskipti og eiga góðar stundir saman eignumst við frábært námsefni sem að við nýtum í starfi með börnunum og foreldrar og börn fá einnig tækifæri til að fá pokana heim til að vinna með.
Bestu kveðjur og góða helgi.
Starfsfólks Krílakots og Kátakots