Komið sæl
Nú er nýtt skólaár hafið hér í Krílakoti og flest börn komin til leiks. Nokkur börn hafa hafið skólagöngu sína undanfarnar tvær vikur og er áætlað að síðustu börnin komi í aðlögun þann 5. september. Það tekur jú á að kynnast þessu nýja umhverfi, börnum og kennurum en flest þeirra hafa áttað sig á hve skólagangan er skemmtileg og alveg ágætis konur sem annast þau. Stundum tekur þó söknuðurinn yfirhöndina og lítið tár læðist niður kinnarnar en þegar þeim er sagt að mamma og pabbi komi aftur taka þau gleði sína á ný, í leik og starfi.
Breytingar hafa orðið í starfsmannahópnum en hún Dagbjört hefur hætt störfum og þökkum við henni árin sem hún starfaði í Krílakoti. Ég, Drífa Þórarinsdóttir, hefur tekið við starfi leikskólastjóra og hlakka til að starfa með ykkur í vetur. Undirbúningur fyrir vetrarstarfið er nú í fullum gangi og viljum við minna á að föstudaginn 26. ágúst er leikskólinn lokaður vegna skipulagsdags.
Leikskólalóðin okkar hefur tekið stakkaskiptum í sumar og eiga margir foreldrar hlut að máli. Við viljum þakka þeim sem lögðu verkinu lið, því margt smátt gerir eitt stórt. George mun starfa hér um helgina og einhverjir ætla að aðstoða hann en það mun að öllum líkindum verða síðustu vinnudagar þetta sumarið.
Á starfsdegi þann 9. ágúst kynnti George lóðina fyrir starfsfólki, möguleika til náms og þroska.
Með bestu kveðju
Drífa Þórarinsdóttir, leikskólastjóri.