Leikskólinn Krílakot í Dalvíkurbyggð hlýtur umbun byggðaráðs 2014 fyrir góðan árangur í rekstri samhliða faglegu starfi fyrir árið 2013.
Sú nýbreytni hefur verið tekin upp af byggðaráði Dalvíkurbyggðar að umbuna þeim stofnunum og fyrirtækjum sveitarfélagsins sem náð hafa góðum árangri í rekstri samhliða faglegu starfi. Að undangenginni umsögn framkvæmdarstjórnar (sveitarstjóri og sviðsstjórar) er byggðaráði heimilt að veita tilteknum vinnustað/vinnustöðum umbun úr sérstökum potti á fjárhagsáætlun 2014. Umbunin er kr. 500.000 á stofnun, þó aldrei meira en kr. 50.000 á hvert stöðugildi. Þegar niðurstöður undanliðins fjárhagsárs liggja fyrir skal framkvæmdastjórn senda byggðarráði rökstudda tillögu.
Í tillögu framkvæmdastjórnar kemur meðal annars fram að við yfirferð vegna ársins 2013 er ljóst að margar stofnanir og fyrirtæki Dalvíkurbyggðar, stjórnendur og starfsmenn, vinna störf sín af ábyrgð, metnaði og vilja til að leysa málin. Fleiri stofnanir og fyrirtæki voru nefnd sem mögulega góðir fulltrúar til að taka við þessari umbun í ár en niðurstaðan var að eftirfarandi þrjár stofnanir fengu flest stig í sérstöku mati sem lagt var til grundvallar:
1. Leikskólinn Krílakot.
2. Árskógarskóli.
3. Slökkvilið Dalvíkur.
Framkvæmdastjórn samþykkti samhljóða með 6 atkvæðum að leggja til við byggðarráð að vinnustaðurinn Leikskólinn Krílakot fái umbun Dalvíkurbyggðar árið 2014 eða kr. 500.000 fyrir góðan árangur í rekstri samhliða faglegu starfi. Á fundi byggðarráðs þann 15. maí 2014 var tillaga framkvæmdastjórnar samþykkt samhljóða. Umbunin skal nýtt til þess að bæta starfsumhverfi starfsmanna og er það á höndum viðkomandi stjórnanda / starfsmanna að ákvarða hvernig umbunin skal nýtt í þágu vinnustaðarins / starfsmanna.